Freyr Frostason formaður stjórnar IWF bendir á í Fréttablaðinu í dag að hið 10 ára gamla sjókvíaeldisfyrirtæki Arnarlax hefur aldrei greitt tekjuskatt á Íslandi.
„Talsmenn sjókvíaeldisfyrirtækjanna hér á landi hafa verið duglegir við að ræða útflutningsverðmæti afurðanna. Þeir hafa hins vegar ekki viljað ræða hina hliðina, hvað kostar að búa til þessar útflutningstekjur og hversu mikið verður eftir á Íslandi þegar upp er staðið.
Þannig hafa þeir ekki nefnt einu orði þetta hrikalega tap sem er af þessum rekstri. Hvernig getur þetta gengið?
Í því samhengi er forvitnilegt að skoða eignarhald sjókvíaeldisfyrirtækjanna sem eru með starfsemi hér. Eigendur þeirra eru að langstærstum hluta norsk félög og önnur félög utan íslenskrar skattalögsögu. Þessi félög hafa í hendi sér að selja dótturfélögum sínum á Íslandi fóður, búnað og ýmsa sérfræðiþjónustu dýrum dómum, auk þess sem þau veita félögunum ýmsa lánafyrirgreiðslu. Þessir fjármunir fara allir úr landi.
Annað forvitnilegt sem má lesa út úr ársreikningi Arnarlax er að launagreiðslur og launatengd gjöld lækkuðu um 200 milljónir króna frá 2017 til 2018. Samt fjölgaði störfum hjá félaginu. Af þessu er erfitt að draga aðra ályktun en að hæstlaunuðu störfin séu að færast frá Íslandi.
Hvað verður þá eftir hér á landi? Ekki háar fjárhæðir, það er víst. Það eina sem þessi félög skilja eftir í miklu magni er mengunin og úrgangurinn sem þau láta streyma beint úr sjókvíunum í firðina okkar.“