Við höldum áfram að birta valda kafla úr 16 blaðsíðna umsögn okkar um Lagareldisskýrslu Boston Consulting Group, sem gerð var að beiðni Matvælaráðuneytisins.
Í skýrslunni eru ýmsar rangfærslur, hæpnar fullyrðingar og upplýsingar lagðar fram án þess að fyrir þeim séu tilgreindar heimildir. Það er mat okkar hjá IWF að skýrslan sé svo gölluð að hún geti ekki þjónað sem grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar.
Fullyrðing BCG
„Laxeldisfyrirtæki og eftirlitsstofnanir leggja í auknum mæli áherslu á ráðstafanir sem auka velferð og heilbrigði fiska.“
Athugasemd IWF
Þetta hljómar eins og almannatengslatexti frá fyrirtækjum í sjókvíeldi. Þrátt fyrir þessar meintu áherslur hefur dýravelferðarvandinn farið versnandi ár frá ári, bæði í íslensku og norsku sjókvíaeldi. Af hverju er þess ekki getið? Hlutverk þessarar skýrslu er ekki að greina frá „áherslum“ heldur stöðunni í lagareldi, og í sjókvíaeldi er staða dýravelferðar óásættanleg svo notuð séu orð norsks ráðafólks „Vi ser at dette ikke er akseptabelt“ sagði til dæmis Per Sandeberg, þáverandi sjávarútvegsráðherra Noregs árið 2018 um laxadauðann 2017, (sjá Fiskeribladet) þegar 53 milljónir eldislaxa drápust í sjókvíunum. Árið 2022 drápust svo enn fleiri eldisdýr, eða 58 milljón eldislaxar í norsku sjókvíaeldi.
Norska dýralæknastofnunin hefur líka ítrekað vakið athygli á þessari stöðu. Sjá til dæmis hér.
Þá er ekki að sjá að eftirlitsstofnanir á Íslandi hafi látið sig velferð eldislax varða sérstaklega. Þannig hefur Fagráði MAST um velferð dýra ekki fjallað um stöðuna í sjókvíaeldisiðnaðinum svo vitað sé. Engin merki er þess að sjá í fundargerðum ráðsins frá 2020, 2021, 2022, né það sem af er liðið 2023. Aldrei hafa þó fleiri fiskar drepist í sjókvíum hér við land en árin 2021 og 2022 (hátt í þrjár miljónir hvort ár), og versnaði staðan milli ára. Þá kom upp blóðþorri seint á árinu 2021 og var 1,7 milljón eldislax „fargað“ af þeim sökum árið 2022.
Viðbragða MAST við þessum skelfilega dýravelferðarvanda er beðið. Sjá fundargerðir Fagráðs MAST um velferð eldisdýra.