Eftirafarandi grein eftir Benediktu Svavarsdóttur, Sigfinn Mikaelsson og Magnús Guðmundsson birtist í Austurfrétt .

„Strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði í fjörðum og flóum (utan netlaga) þar sem sett er fram stefna um framtíðarnýtingu og vernd svæðisins. Það er unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Innviðaráðherra skipar svæðisráð, sem ber ábyrgð á gerð skipulagsins, og vinnur það með aðstoð Skipulagsstofnunar.

Skipulagið er nauðsynleg forsenda allra ákvarðana um nýtingu á skipulagssvæðinu.

Vinnubrögð Skipulagsstofnunar við strandsvæðaskipulag Austfjarða er unnið á sama hátt og allt annað sem kemur sjókvíaeldi og uppbyggingu þess við. Þar eru fulltrúar sem ganga erinda fiskeldisfyrirtækjanna og fúsk í vinnubrögðum.

Sjókvíaeldisfyrirtækin ráða för

Skipulagsstofnun vann þvert á fyrra álit sitt við umsókn Laxa um 10.000 tonna eldi í Seyðisfirði. Það átti strax að segja nei. Valkostur A, sem er án sjókvíaeldis, er eina leiðin í Seyðisfirði vegna Farice-1 strengsins og helgunarsvæðis hans. Í öðru lagi átti Hafrannsóknarstofnun ekki að samþykkja beiðni sjávarútvegsráðherra um að taka Seyðisfjörð í burðarþolsmat, því henni bar að taka tillit til annarrar starfssemi í firðinum þ.e. strengsins og þröngrar siglingaleiðar. Þetta er staðfest í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Það var dapurlegt að svæðisráðið kynnti tillöguna með rangri mílu, sem nú hefur verið leiðrétt með texta. „Gerð verður eftirfarandi breyting á almennu skipulagsákvæði fyrir nýtingarflokkinn Lagnir og vegir: Á reitunum er ekki gert ráð fyrir starfsemi sem hefur áhrif á öryggi veitulagna.Leita þarf umsagna eigenda flutningskerfa við veitingu leyfa til efnistöku og eldis eða ræktunar nytjastofna innan marka skipulagsreita.“ Svæðisráð fríar sig við að taka afstöðu í Strandsvæðaskipulaginu.

Ef smellt er á nýtingarreitina í Seyðisfirði á þessu korti, koma upp ýmsar upplýsingar, en þar er Farice-1 strengurinn ekki nefndur þó helgunarsvæði hans fari undir nýtingarreitina ef rétt er teiknað. Athugasemdir SFS og laxeldisfyrirtækjanna ganga enn út á ranga mílu. Tilviljun eða ásetningur?

Hvers vegna svona vinnubrögð? Er það vegna þess að strengurinn og sjókvíaeldi fara ekki saman í firðinum?

Skipulagið hefur vikið siglingaöryggi til hliðar. Á Vestfjörðum eru átta eldissvæði í hefðbundinni siglingaleið og níu á Austfjörðum. Ekkert mál var að hundsa grunnetshafnir, sem njóta siglingaverndar en hún er á ábyrgð Samgöngustofu.

Á Vestfjörðum eru átta eldissvæði og ellefu á Austfjörðum í hvítum ljósgeira vita. Þetta er brot á vitalögum, en þar ber Vegagerðin ábyrgð.

Að mati Landhelgisgæslunnar verður að gera ráð fyrir að öryggissvæði siglingaleiða sé a.m.k. 200 metrar en ekki 50 metrar líkt og tillögurnar gera ráð fyrir. Ekki var hlustað á það. Þarna eru a.m.k. þrjár stórskipahafnir Ísafjörður, Seyðisfjörður og Reyðarfjörður. Formaður svæðisráðs sagði aðspurður að Landhelgisgæslan væri bara lögregla á sjó og réði engu.

Þarna er alvarlegum athugasemdum þriggja ríkisstofnana ýtt til hliðar. Í Kveiksþætti í nóvember s.l. opinberaði Jens Garðar (Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Laxa/Fiskeldis Austfjarða) hver ræður þegar hann var spurður um minnkað siglingaöryggi og sjókvíaeldi: „þá verðum við bara að setjast niður með þessum stofnunum og finna ásættanlega lausn.“ Fiskeldið ræður.

Stofnanir í mótvægisaðgerðum við eigin athugasemdum

Í framhaldinu stofnaði innviðaráðherra nefnd frá þrem ríkisstofnunum til að koma með mótvægisaðgerðir við sínum eigin athugasemdum um siglingaöryggið. Mótvægisaðgerðirnar voru sérstakar. Minnka ljósgeira, leggja af vita og byggja nýja í staðin, hægja á Norrænu og öðrum stórum skipum við kvíar, koma á lóðsskyldu o.s.fv.

Þar var sömuleiðis sérstaklega tekið fram að í Mjóafirði væri sæstrengur sem væri aflagður og þannig ekki áhyggjuefni. En sömu nefnd fannst ekki vert að minnast á virkan sæstreng í Seyðisfirði í yfirferð sinni og mótvægisaðgerðum þar. Það var sömuleiðis áhugavert að lesa í fundargerðum svæðisráðs að þeim tókst að koma inn nýtingarsvæði fyrir fiskeldi í Mjóafirði með þeim rökum að íbúar kölluðu eftir því, en fjörðurinn hefur ekki farið í burðarþolsmat. Í Seyðisfirði hafa íbúar sett sig uppá móti áformunum en það virðist ekki skipta svæðisráð máli. Hvernig stenst þetta skoðun um fagmennsku og hvernig getum við borið traust til svona vinnubragða ?

Hagsmunir sjókvíaeldis alltaf framar öðrum

Veðurstofan er enn ein ríkisstofnunin sem er hundsuð. Minnisblað Veðurstofunnar um að eldiskvíar á svæði SN2 í Seyðisfirði standist ekki viðmið um ofanflóðahættu er lagt til hliðar. Það þarf að skoða ef af leyfisveitingu verður, í staðin fyrir að nota plaggið og segja að þetta gangi ekki.

Í landinu eru lög um verndun náttúru og umhverfis. Fór svæðisráð fór eftir þeim? Nei – ekki alls staðar. Mörg dæmi eru um að hverfisvernd og staðir á náttúruminjaskrá hafi verið sniðgengin og falin í skipulagsuppdrættinum. Æðarfugl er á Evrópuválista og ein af fuglategundum, sem telst til ábyrgðartegunda á Íslandi. Æðarfugl er algengur bæði á Aust- og Vestfjörðum.

Það ber allt að sama brunni. Svæðisráðið tekur hagsmuni sjókvíaeldis fram yfir innviði landsins og allt annað, enda nokkrir sterkir talsmenn laxeldis í ráðinu. Ekkert eldissvæði, sem lagt var af stað með, var tekið út við vinnslu skipulagsins þrátt fyrir margar alvarlegar og málefnalegar athugasemdir.

„Sá sem hefur gullið setur reglurnar“

Út með pólitík inn með fagmennsku, rökhugsun, skynsemi og framtíðarsýn.

Svæðisráð á að vera skipað fagfólki , sem treystir sér til að vinna skipulag frá grunni samkvæmt lögum og reglum og með framtíðina í huga, en ekki eftir hagsmunum einstakra aðila eða atvinnugreina.

Það á að taka strax út þau átta svæði, sem eru í umsóknarferli, synja Strandsvæðaskipulaginu, því það tekur ekki afstöðu til innviða landsins og endurvinna það frá grunni.“