Borgaryfirvöld í Belfast í Maine ríki á austurströnd Bandaríkjanna hafa lagt blessun sína yfir áætlanir um að reist verði 33 þúsund tonna landeldisstöð við bæjarmörkin. Til samhengis þá er það meira magn en var framleitt í sjókvíum hér við land á síðasta ári.
Þetta verður ein stærsta landeldisstöð í heimi. Gert er ráð fyrir að lax úr þessu umhverfisvæna eldi komi á markað árið 2020.
Það skýtur mjög skökku við að megináhersla fyrirtækja sem vilja auka eldi á Íslandi, sé nánast öll á opnar sjókvíar, þá frumstæðu tækni sem er í grunninn ekki annað en netapoki í sjó. Eins og er alþekkt þá rifna net alltaf á endanum og fiskur sleppur út. Eins er mengunin frá sjókvíunum skelfileg. Allur úrgangur, matarafgangar og eitrið sem er hellt í þær til að kljást við laxalúsina, rennur óhindrað í hafið.