Þrátt fyrir að talsmenn gamla tímans og úreltrar tækni vilji ekki viðurkenna það þá eru að renna upp nýir tíma í fiskeldi. Sjókvíaeldi í netapokum er niðurgreitt af náttúrunni og lífríkinu. Þar lendir skaðinn af þessari gömlu framleiðsluaðferð, sem er fráleit þegar hún er komin á iðnaðarskala.
Þegar Samherji kynnti í vikunni stórtæk áform um landeldi á Reykjanesi kom skýrt fram að allt frárennsli yrði hreinsað og afraksturinn nýttur sem áburður í matjurtaframleiðslu.
Svona vinna nútímafyrirtæki. Í sjókvíaeldinu er allt skólp látið streyma beint í sjóinn, fóðurleyfar, fiskaskítur, eiturefni gegn lús og kopar úr ásætuvörnum á netapokunum. Við þetta bætast svo sníkjudýr og eldislaxar sem sleppa og skaða villta stofna með erfðablöndun.
Það er ekki að ástæðulausu að jafnvel innanbúðarfólk í þessum iðnaði spáir því að dagar opins sjókvíaeldis séu taldir.
Í þessari frétt Eyjafrétta er sagt frá áformum um landeldi í Vestmannaeyjum þar sem megináhersla verður lögð á „sjálfbærni, nýjungar og nýtingu.“
Ekkert af þeim orðum á við um sjókvíaeldi í netapokum.