Samherji hefur um árabil verið leiðandi í landeldi á Íslandi, bæði á laxi og bleikju. Ef þessi áform ganga eftir mun félagið framleiða 7.000 tonn á ári af laxi í skálunum í Helguvík. Til að setja þá tölu í samhengi var framleitt um 30.000 tonn í sjókvíum hér á landi í fyrra.
Mjög umfangsmiklar áætlanir um landeldi eru líka í undirbúningi í Þorlákshöfn. Fróðlegt verður að sjá hvort þessir framleiðendur sætti sig við þá samkeppnismismunun að keppinautar þeirra, sem eru með netapokana í sjónum, fái að komast áfram upp með að vera undanþegnir lögum um vernd gegn mengun hafs og stranda Eins fráleitt að það hljómar þá byggir sú undanþága á að starfsemin fer fram í „viðtakanum“. Ef hún væri á landi væri harðbannað að senda hroðann ósíaðan beint í sjóinn.
Skv. frétt Fréttablaðsins:
„Boranir eftir grunnvatni og jarðsjó hafa staðið yfir í Helguvík á síðustu vikum, en Samherji fiskeldi og Norðurál undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis í október síðastliðnum að Samherji kaupi lóð og fasteignir á svæðinu af Norðuráli og nýti undir laxeldi á landi. Byggingar Norðuráls við Helguvík eru alls 23 þúsund fermetrar og lóðin er um 100 hektarar. Kaupverð eignanna liggur ekki fyrir. …
Þegar og ef landeldið við Helguvík verður að raunveruleika gera áætlanir Samherja ráð fyrir því að slátra allt að 20 tonnum af laxi daglega og senda á erlenda markaði með flugi, að því er heimildir Markaðarins herma. Það þýðir að árleg framleiðslugeta gæti orðið yfir 7.000 þúsund tonnum, ef slátrað er allflesta daga ársins. Núverandi framleiðslugeta Samherja í laxeldi er um 1.500 tonn samkvæmt heimasíðu Samherja. Því myndi eldið í Helguvík margfalda framleiðslugetu fyrirtækisins.“