„Hvar er fræðslan? Hvar er upplýsingaflæðið. Af hverju er ekki búið að setja saman gagnagrunn og upplýsa þá sem í þessu standa – sem og veiðimenn. Hvað er áætlað að mikið af fiski hafi strokið ? Hvað voru fiskar stórir sem tengjast stroki? Getur verið að það henti ekki að láta vita hversu mikið slapp, eða vita menn það hreinlega ekki?“
Þetta segir Guðmundur Haukur Jakobsson, varaformaður Veiðifélags Blöndu og Svartár, og hefur því miður ekki rangt fyrir sér.
Meðvirkni og þjónkun þessara stofnana með skaðlegri iðnaðarstarfsemi þar sem er brotið á eldisdýrunum og níðst á náttúru Íslands er með miklum ólíkindum.
Þessar stofnanir eiga að að gæta hagsmuna almennings en gera það ekki.
Í Sporðaköstum Morgunblaðsins segir m.a.:
Fyrr í dag var háfaður mjög líklegur strokulax úr sjókví í laxastiganum í Blöndu. Laxinn ber hefðbundin einkenni þeirra laxa sem ættaðir eru úr slíku umhverfi. Það eru nokkur atriði sem í þessu samhengi vekja verðskuldaða athygli. Laxinn er ekki nema 65 sentímetrar og er mun minni fiskur en flestir þeir sem hafa verið að veiðast og verið greindir sem strokulaxar.
Laxar af þessari stærð hafa sést í haust og hefur komið fram áður kenning um að um tvö óskyld strok sé að ræða. Það var Guðmundur Haukur Jakobsson sem háfaði laxinn, eins og svo marga áður. „Nei. Þessi lax verður ekki sendur til Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar. Þar á bæ er manni sagt að þeim sé ekki heimilt að veita okkur upplýsingar lengur, eru það eðlileg vinnubrögð að við fáum ekki skýrslu eða niðurstöður rannsóknar af fiskum sem við sendum.“ svaraði Guðmundur Haukur, spurður hvort þessi lax færi til Hafró.
En hver bannar upplýsingagjöf?
„Þú verður að spyrja einhvern annan en mig að því.“
…
En það er alvarlegt ef þið treystið ekki þessum stofnunum sem fara með þessi mál.
„Við heyrum ekkert og höfum ekki fengið greitt fyrir þá ómældu vinnu sem lagt var í haustið 2023 og líka núna í haust. Í ljósi alls þessa er eitthvað skrítið að menn eigi erfitt með treysta þessum aðilum, spyr ég á móti. Ég lagði í mikla vinnu og var í miklum samskiptum við ráðuneytið líka og ráðuneytið segist ekki sjá neitt athugavert við þau vinnubrögð sem eru viðhöfð,“ upplýsir Guðmundur Haukur. …