Yvon Chouinard stofnandi útivistarmerkisins Patagonia er magnaður samherji í baráttunni gegn sjókvíaeldi á Íslandi og um allan heim.

Í frétt Heimildarinnar segir m.a.:

… Af öllum þeim 306 umsögnum sem hafa borist um lagafrumvarpið þá er nafn Yvons þekktast af öllum þeim sem hafa lagt orð í belg. Mikill meirihluti athugasemdanna kemur frá íslenskum einstaklingum og stofnunum en svo eru einnig nokkrar frá erlendum. Chouinard hefur beitt sér í umræðunni um laxeldi á Íslandi um árabil og meðal annars fjármagnað gerð tveggja heimildarmynda um eldið – önnur var heimsfrumsýnd hér árið 2019 og svo er verið að leggja lokahönd á aðra sem sýnd verður í febrúar.

Markmið Yvons, miðað við athugasemdina, er að sjókvíaeldi á Íslandi verði einfaldlega bannað með lögum. „Það mun þurfa ykkar sýn og leiðtogahæfni til að snúa við þeim skaða sem orðinn er en við vitum að það er hægt. Ef þið horfið á langtímaáhrifin, líkt og ég geri, þá er bæði hægt að styðja bæjarfélög á Íslandi og náttúruna og þið getið sent þau skilaboð til annarra landa í Evrópu að náttúran sé sameiginleg ábyrgð okkar allra.“

Fyrir tæpum tveimur árum síðan, um sumarið 2022, kom Yvon til Íslands og fundaði þá meðal annars með Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum. Náttúruverndarsamtökin Icelandic Wildlife Fund – samtökin eru þrýstihópur sem berst gegn laxeldi – höfðu veg og vanda af komu hans til Íslands í það skiptið.

Stofnandi IWF, Ingó Ásgeirsson, sem starfar við sölu laxveiðileyfa hjá fyrirtækinu Störum, sótti Ivon í Leifsstöð þegar hann kom hingað 2022. „Þetta er sterkasti bandamaður villta laxins í heiminum. Ég hafði aldrei hitt hann áður og flugið hans var á undan áætlun. Yvon notar ekki farsíma þannig að ég gat ekki hringt í hann og mælt mér mót við hann. Maður sem ég þekki sá hins vegar til þess að hægt var að beina honum á Joe & The Juice þar sem hann beið eftir mér. Þegar ég kom þangað var hann með eina veiðistöng með sér og í gömlum Patagonia-jakka. Hann er eins „low profile“ og þeir gerast.“

Í þessari heimsókn fór Yvon um landið og veiddi í nokkrum ám ásamt Ingó og fleirum. „Við þvældumst saman um landið í tvær vikur og vorum að veiða saman. Fórum í Blöndu, Laxá í Aðaldal, Laxá í Kjós og Sogið. Hann er ástríðufullur fluguveiðimaður og veiðir um allan heim. Þegar hann var yngri kom hann hingað oft og veiddi í mörgum ám. Þetta er einhver magnaðasti maður sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Það voru forréttindi að fá að vera með honum í tvær vikur. Hann er listilegur veiðimaður og ein stærsta persónan í umhverfisverndarmálum í heiminum í dag.“

Forstjóri Patagonia skrifaði einnig umsögn
Ryna Gellert, forstjóri Patagonia, skrifaði líka umsögn um lagafrumvarpið um fiskeldið. Umsögn hans fer hér á eftir:

„Sem forstjóri Patagonia, alþjóðlegs fyrirtækis með 50 ára langa sögu og stöðugan áhuga á umhverfisvernd, þá veit ég að hagsmunir náttúrunnar og hagkerfisins fara saman.

Vegna þessa kom ég til Íslands í nóvember árið 2019 og afhenti undirskriftir 180 þúsund einstaklinga víða um heim sem skoruðu á íslensk stjórnvöld að banna laxeldi í opnum sjókvíum. Þennan dag stóð ég við hliðina á fulltrúum veiðifélaga, félagasamtaka og bæjarfélaga. Öll vonuðumst við eftir því að hægt yrði að vinda ofan af skemmdunum sem hafa verið unnar á fjölbreytileika lífríkisins á Íslandi og þar af leiðandi á framtíð þess.

Síðastliðin fjögur ár hef ég fylgst með því hvernig allt sem umhverfisverndarsinnar hafa sagt hefur orðið að veruleika og staða íslenskrar náttúru og villtra fiskistofna verður æ tvísýnni. En ég ber enn þá von í brjósti vegna þessi að ég hef trú á framtíðarsýn og þori íslenskra stjórnmálamanna og íbúa og að þeir breyti með sem bestum hætti fyrir landið og fallvötnin – stolt landsins ykkar – og banni strax laxeldi í opnum sjókvíum áður en það verður of seint.“

Bara Guðni vildi hitta hann
Ingó segir að Ivon fari víða um heim og veiði og ræði þá oft við ráðamenn í viðkomandi löndum á sama tíma. Þegar hann kom hingað til lands árið 2022 tók hann frá tvo daga til að ræða við fjölmiðla og reyndi að fá áheyrn ráðamanna til að ræða um laxeldi í sjókvíum. Ingó segir að hann hafi sent erindi á formenn allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi. „Við fórum á Bessastaði og sátum með Guðna í svona einn og hálfan tíma og hann tók vel á móti okkur. Yvon var þá nýkominn af fundi með forsætisráðherra Kanada. Hvatinn að ferðinni var annars að fara í Laxá í Aðaldal og svo hins vegar að hvetja ráðamenn til að láta af þessari iðju, sjókvíaeldinu, því hann veit eins og svo margir aðrir að annars mun þetta enda með ósköpum – endalokum villta íslenska laxins. Það var sent bréf á formenn allra stjórnmálaflokkanna en bara Guðni vildi hitta okkur,“ segir Ingó.

Um fundinn með Yvon segir Guðni Th. Jóhannesson forseti við Heimildina: „Chouinard lætur ekki mikið yfir sér en þunginn í orðum hans var því meiri þegar hann ræddi um mál sem standa hjarta hans nærri. Þetta var að því leyti eftirminnilegur fundur.“

Samkvæmt því sem Ingó segir hefur Yvon veitt í öllum helstu laxveiðiám Íslands, Haffjarðará, Vatnsdalsá og svo framvegis. Hann segir að Yvon hafi átt í góðu sambandi við Orra heitinn Vigfússon hjá Verndarsjóði villtra laxastofna (NASF) áður en hann lést árið 2017.

Í athugasemdinni segir Yvon meðal annars um þessi tengsl sín við Ísland: „Ég er fluguveiðimaður og hef varið mörgum hamingjuríkum dögum við íslenskar ár og veitt lax. Yfir þennan langa tíma hef ég eignast marga íslenska vini sem deila ást minni á náttúrunni og viljanum að vernda hana. Það þarf ekkert að segja mér að Ísland sé sérstakur staður. Á mínum 85 árum hef ég komið til margra heimshorna: Sem fluguveiðimaður, stofnandi Patagonia og sem stofnandi matvælafyrirtækis okkar, Patagonia Provisions, og enginn staður stenst samanburð við landið ykkar. En nú hef ég áhyggjur af því að við höfum hafið vegferð sem ekki verður hægt að vinda ofan af. Frá fyrstu heimsókn minni til Íslands árið 1960 höfum við séð hrun á villtum laxastofnum. Og núna mun það gerast, ef sjókvíaeldið fær að stækka áfram óhindrað, þá munu þessir villtu stofnar heyra sögunni til og óspillt náttúra skemmd. Þetta hefur gerst áður í Bretlandi og Noregi.“