Umhverfisstofnun ætlar loks að taka til skoðunar áhrif eiturefna og lyfja sem notuð eru í íslensku sjókvíaeldi gegn laxa- og fiskilús, á lífríkið í nágrenni kvíanna. Þekkt er frá öðrum löndum að áhrifin eru afar vond fyrir rækju, humar og marfló. Allt eru þetta skeldýr líkt og lúsin sem eitrið drepur á eldislaxinu.
Þetta kemur fram í athyglisverðri fréttaskýringu sem Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður MBL, skrifar og hægt er að lesa með því að smella á meðfylgjandi hlekk.
Það eru góð tíðindi að Umhverfisstofnun ætli loks að rannsaka þessa miklu eitur- og lyfjanotkun í sjókvíaeldinu. Þó fyrr hefði verið.
Sérfræðingar MAST fullyrtu fyrir fimm árum að lúsin yrði ekki sambærilegt vandamál í íslensku sjókvíaeldi og í öðrum löndum og bentu á að aldrei hefði þurft að heimila notkun eiturefna hér. Þessi spá reyndist fullkomið rugl. Nokkrum vikum eftir að séfræðingarnir lögðu hana fram gaf MAST út fyrsta eitrunarleyfið. Síðastliðið haust var svo búið að gefa út 21 staðbundið leyfi fyrir eitrunum eða lyfjagjöf vegna lúsar. Þar af níu aðeins í Arnarfirði, þar sem sjókvíaeldið er einmitt mest og þéttast á Íslandi. Það er nefnilega límassi, fjöldi fiska í sjókvíum, og þéttleiki sem er langstærsti orsakaþáttur þess að lúsin nær sér á strik í sjókvíaeldi. Að MAST skyldi halda öðru fram var og er óskiljanlegt.
Skv. Umfjöllun Mbl:
„Síðasta haust fengu laxeldisfyrirtæki á Vestfjörðum heimild fiskisjúkdómanefndar til að beita lyfjunum slice og alphamax gegn laxa- og fiskilús, en henni hafði fjölgað mjög á svæðinu.
Í svari við fyrirspurn blaðamanns til Umhverfisstofnunar um afstöðu hennar til notkunar lyfjanna segir: „Umhverfisstofnun er meðvituð um möguleg áhrif á umhverfið vegna þeirra lyfja sem notuð eru við meðhöndlun gegn fiski- og laxalús, þar með talið möguleg áhrif lyfsins emamectin benzoate [einnig þekkt sem slice].“ Þá segir að stofnunin hafi ekki tekið afstöðu til notkunar slíkra lyfja með tilliti til áhrifa á lífríki í þeim fjörðum þar sem þeim er beitt, en tekur fram að málið verði til frekari skoðunar á þessu ári. …
Í svari sínu vekur Umhverfisstofnun athygli á skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá 2019 um virkni, áhrif og notkun lyfja gegn laxalús. Í henni segir að rannsóknir á áhrifum lyfsins hafi sýnt að amerískur humar tapaði eggjum eftir að hafa innbyrt lúsalyfið. Þá hefur Slice haft áhrif á hamskipti evrópskra humra. „Afmyndanir humra hafa áhrif á hreyfigetu og fæðuöflun og líklegt að þeir einstaklingar verði afræningjum að bráð eða drepist úr fæðuskorti.“ Tekið er þó fram að ekki hafi evrið gerðar rannsóknir á áhrifum lyfjanna á íslenskan leturhumar.
Slice er einnig talið hafa neikvæð áhrif á hamskipti og eggjaframleiðslu krabbaflóa.
Þá segir í skýrslunni að kostir slice séu að lyfið hafi áhrif á öll stig laxalúsarinnar og virkni þess sé allt að tveir mánuðir. „Á þeim tíma fær fiskurinn ekki á sig nýjar lýs og getur jafnað sig af sýkingu/sárum. Þá hafi lyfið verið notað reglulega frá því það kom á markað árið 2000 en virkni þess hefur minnkað í Skotlandi, Noregi og Kanada. Af skýrslunni að dæma er margt sem bendir til þess að lyfið sé skaðminna en mörg önnur lyf sem hefur verið beitt gegn laxalús, en dæmi eru um að laxalúsin hafi orðið ónæm gegn slice.“