Fyrrverandi stjórnarformaður Arnarlax græðir líka þegar eldislaxarnir drepast í sjókvíunum. Dauðinn fer þar vaxandi ári frá ári.

Heimildin fjallar um fyrirtækjarekstur Kjartans Ólafssonar.

Kjartan Ólafsson, hluthafi og stjórnarmaður í Arnarlaxi um margra ára skeið, á fyrirtæki sem vinnur og selur dýrafóður úr dauðfisk…

Þessi þróun sést bersýnilega í ársreikningi fyrirtækis Kjartans, Arctic Protein ehf., sem fjárfestingarfélag hans á með norska félaginu Pelagia sem á skip sem safna saman dauðfiski í sjókvíum og vinna úr honum meltu, dýrafóður. Fyrirtæki í eigu Kjartans, Berg fjárfesting, á 49 prósenta hlut í Arctic Protein á móti 51 prósenti norska fyrirtækisins. Kjartan er auk þess stjórnarmaður í félaginu og hefur í gegnum tíðina verið leiðandi í rekstri þess samkvæmt heimildum. Skip á vegum Pelagia, sem bera öll nöfnin Hordafor, hafa ítrekað komið hingað til lands til að hreinsa dauðfisk upp úr sjókvíum. Tekjuaukning Arctic Protein er talsverð á milli ára og nam til dæmis 214 milljónum króna árið 2022 eftir að hafa verið rúmlega 150 milljónir króna árið 2021. Hagnaðurinn af félaginu er sömuleiðis nokkur ár eftir ár: Rúmar 7 milljónir 2022 og rúmlega 21 milljón 2021.

Kjartan keypti sig inn í Arctic Protein fyrir nokkrum árum og keypti þá út aðra hluthafa, eins og til dæmis Víking Gunnarsson, sem var framkvæmdastjóri Arnarlax um tíma. Upphaflega var rekstur Arctic Protein þannig að fyrirtækið var með verksmiðju í Borgarnesi sem framleiddi dýrafóður, mjöl og lýsi, úr afgöngum af eldislöxum.

Þeirri verksmiðju var svo lokað og fyrirtækið byrjaði að framleiða meltu – dýrafóður – á Bíldudal þar sem Arnarlax er með höfuðstöðvar sínar. Fyrirtækið framleiðir í dag svokallaða Cat-2 og Cat-3 meltu. Munurinn á þessum tveimur gerðum af meltu er að Cat-2 meltan er unnin úr dauðfiski en Cat-3 meltan er unnin úr slógi og afskurði úr eldinu. Meltan er svo seld sem fóður fyrir dýr.

Fékk kúlulán fyrir bréfum og seldi fyrir milljarð
Kjartan hefur meðal annars verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna þess að hann fékk kúlulán – lán þar sem höfuðstóll og vextir greiðast bæði á tilteknum degi – frá stærsta hluthafa Arnarlax, norska laxeldisfyrirtækinu Salmar AS, til að kaupa hlutabréf í Arnarlaxi.

Hlutabréf Kjartans í Arnarlaxi hafa aukist mjög í verði eftir að hann keypti þau. Í árslok 2022 voru bréf hans metin á tæplega 2,2 milljarða króna. Í nóvember í fyrra seldi félag Kjartans, Gyða ehf., hluta þessara bréfa í Arnarlaxi til Salmar. Greint var frá þeim viðskiptum í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Um var að ræða hlutabréf fyrir tæplega 1,1 milljarð króna. Kjartan á því verulega fjárhagslega hagsmuni undir í sjókvíaeldi hér við land og hefur nú þegar hagnast ævintýralega á því.