Nú er það staðfest. Verksmiðjuskipið Norwegian Gannet mun sigla með eldislaxinn sem það sýgur upp úr sjókvíum Arnarlax beint til Danmerkur.
Eitt þekktasta og fullkomnasta sláturskip í heimi, The Norwegian Gannet, er á leiðinni til landsins til að aðstoða stærsta laxeldisfyrirtæki landsins, Arnarlax, við að slátra upp úr eldiskvíum fyrirtækisins í Arnarfirði. Vont veður og erfiðar aðstæður í Arnarfirði hafa valdið Arnarlaxi tjóni síðustu daga þar sem fyrirtækið hefur ekki getað slátrað sjálft upp úr fimm eldiskvíum sem fyrirtækið rekur í firðinum þar sem er að finna 4 þúsund tonn af eldislaxi í sláturstærð, 6- 9 kíló, á að giska 450 til 650 þúsund laxar.
„… Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, hafði ekki svarað spurningum sem Stundin sendi honum þegar fréttin var birt heldur vísaði í frétt um komu skipsins á heimasíðu Arnarlax þar sem meðal annars segir: „Að auki er sláturskipið Norwegian Gannet á leið til landsins til að aðstoða við slátrun en um er að ræða eitt fullkomnasta sláturskip í heimi.“
Skipið er í eigu norskra aðila, eins og nafnið ber með sér, og eru lýsingarnar á því þannig að það sé einstakt í heiminum. Lýsingarnar eru á köflum háfleygar. Á vefsíðunni Salmon Business segir meðal annars um skipið: „Sláturskipið er engu líkt, engu, hvar sem leitað er.“ …
Notkun Arnarlax á sláturskipinu þýðir að eldislaxinn sem starfsmenn skipsins munu slátra verður fluttur beint úr landi í The Norwegian Gannet.
Í skipinu er hægt að slátra 160 þúsund tonnum af eldislaxi á ári, sem er rúmlega fimmföld ársframleiðsla á eldislaxi á Íslandi árið 2019. Skipið getur flutt 1.000 tonn af eldislaxi í einu.“