Þetta er svo óendanlega sorglegt.

Grenlækur í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu er eitt fengsælasta sjóbirtingssvæði landsins

Í frétt Vísis segir ma:

Grenlækur í Landbroti hefur staðið á þurru á ellefu kílómetra kafla síðan í vor og meirihluti hrygningarfiska er dauður. Sonur landeigenda segir stöðuna grafalvarlega. …

Ástæðuna segir sonur landeiganda vera garða sem Vegagerðin og Landgræðslan reistu til að vernda þjóðveginn og mosa í Eldhrauni. Garðarnir, sem reistir voru 1992 og árin á eftir, hefti rennsli vatns úr árkvíslum sem renni í hraunið.

„Þetta er ástand sem er búið að vera síðan í vor. Meiri hlutinn af hrygningarfisknum er dauður í læknum og ástandið er bara grafalvarlegt. Við erum mjög hrædd um að þessi fiskstofn, þessi sjóbirtingsstofn í Grenlæk, muni deyja út ef ekkert verður að gert,“ segir Leifur Bjarki Erlendsson. Hann er sonur hjónanna Þórunnar Júlíusdóttur og Erlendar Björnssonar í Seglbúðum, en þau eru meðal landeigenda við Grenlæk.

Lækurinn hefur áður staðið á þurru, og gerði það síðast árið 2016. Leifur segir þurrkinn þó aldrei hafa varað jafn langt inn í sumarið, og að hver dagur skipti máli.

„Nú er fiskurinn farinn að ganga aftur upp í ána, og augljóslega getur hann ekki gengið upp í þurra á,“ segir Leifur.


Landeigendur hafi verið í sambandi við þrjú ráðuneyti sem málið heyri undir.

„Og það er sama sagan eins og hefur alltaf verið síðustu 20, 30 ár: Þetta fer á milli ráðuneyta, embættismenn benda hver á annan, enginn sem tekur ábyrgð, það eru minnisblöð, það eru nefndir og það gerist ekki neitt.“

Landeigendur gefist ekki upp, en séu orðnir langþreyttir á stöðunni.

„Nú er stofninn að deyja út, það er á ábyrgð stjórnvalda að gera eitthvað í því, og það er tiltölulega augljós lausn.“