Það er allt sorglegt við þessar hugmyndir um sjókvíaeldi i Fjallabyggð.
Í fyrsta lagi er verið að kasta ryki í augu fólks með því að tala um að eldi á ófrjóum eldislaxi sé handan við hornið og mögulega lokka fjárfesta (og bláeyg sveitarfélög) að verkefninu.
Ófrjór lax er hvergi í sjókvíum við Ísland, þrátt fyrir fleiri tilraunir.
Það er við hæfi að rifja upp að árið 2019 stóð til að hefja eldi á ófrjóum lax í Fáskrúðsfirði: „Við gerð umhverfismats hafði Skipulagsstofnun bent á að óvíst væri hvort ófrjór lax hentaði við Ísland. Meira af honum dræpist og hann væri frekar útlistgallaður. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður fiskeldis Austfjarða, segir að það eigi ekki lengur við.“
Fiskeldi Austfjarða setti ófrjóan eldislax í sjókvíar í Berufirði 2021. Ekkert af honum fór á neytendamarkað samkvæmt okkar heimildum.
Fiskeldi Austfjarða sagðist 2021 ætla að hefja 7.000 tonna eldi með ófrjóan eldislax í Stöðvarfirði. Stjórnandi fyrirtækisins sagði í fjölmiðlum að framleiðsla á ófrjóum seiðum fyrir Stöðvarfjörð væri hafin á Rifósi og Kópaskeri og að stefnt væri að því að setja þau í sjókvíar um vorið 2022. Það hefur ekki enn gerst.
Ófrjór eldislax er markmið sjókvíaeldisfyrirtækjanna vegna þess að þau telja að með því að útiloka erfðablöndun við villtan lax muni andstaðan við þennan rekstur hverfa. Það er rangt hjá þeim.
Öll hin ömurðin heldur áfram. Hrikalegur dauði eldislaxa í sjókvíunum vegna vetrarsára, sjúkdóma og sníkjudýra, gríðarleg lífræn mengun, saur og fóðurleifar, kemísk mengun, örplast og þungmálmar, laxalús sem mun eyða stofnum sjóbleikju og sjóbirtings, og svo auðvitað skelfileg sjónræn mengun í fjörðunum.
Þessi grimmdarlega stóriðja og verksmiðjubúskapur á dýrum á ekkert erindi i firðina okkar.
Hugmyndir eru uppi um eldi á ófrjóum laxi í Fjallabyggð og er áformað að framleiðslugeta eldisins verði 20 þúsund tonn árlega, áætluð velta 26 milljarðar króna á ári og fjárfestingin 20 milljarðar í fastafjármunum og 10 milljarðar í lífmassa.
Það er fyrirtækið Kleifar fiskeldi sem stendur að þessu verkefni, en í fyrirsvari fyrir það félag er Róbert Guðfinnsson, stofnandi Genís og einn eigenda Hólshyrnu. Einnig kemur Árni Helgason verktaki í Ólafsfirði að verkefninu, ásamt öðrum fjárfestum.
Ætlunin er að eldið verði þríþætt; seiðaeldi á Siglufirði, landeldi í Ólafsfirði og áframeldi í sjókvíum í fjörðum á Tröllaskaga. Talið er að fimm ár taki að koma eldinu á laggirnar, eftir að öll tilskilin leyfi hafa fengist. …