Stundin segir frá því í dag að Matvælastofnun hafi sent Arnarlaxi sektarboð vegna rangrar upplýsingagjafar um fjölda eldislaxa í sjókví í Arnarfirði. Rannsókn MAST hófst í kjölfar umfangsmikils sleppislys úr sjókví en eldislaxar hafa fundist í ám um alla sunnanverða Vestfirði.
Sjókvíaeldisfyrirtæki um allan heim hafa ítrekað orðið uppvís um að setja miklu fleiri eldislaxa í kvíar en þau hafa heimild fyrir. Eftirlit með þessari brotastarfsemi er hins vegar nánast ekkert því fyrirtækin eru látin annast eftirlit með sjálfu sér. Brotin komast yfirleitt ekki upp nema slys verða, sjókvíar sökkva eða net rofna, og fulltrúar yfirvalda þurfa að mæta á staðinn eins og gerðist í þessu tilviki.
Þetta er sóðaiðnaður sem lætur sér fátt um finnast þegar kemur að umgengni um lífríkið og umhverfið eða gæta að velverð eldisdýranna. Vonin um meiri hagnað hefur alltaf vinninginn hjá þeim sem stýra sjókvíaeldisfyrirtækjunum.
„Matvælastofnun (MAST) hefur tilkynnt laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi að stofnunin íhugi að leggja sekt á félagið vegna rangrar upplýsingagjafar um fjölda eldislaxa í sjókví fyrirtækisins á Vestfjörðum. Arnarlax hefur andmælarétt út daginn í dag til að svara sektarboðinu. Þetta segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá MAST.
Stofnunin hóf rannsókn á upplýsingagjöf Arnarlax eftir að eldislaxar höfðu sloppið úr sjókví fyrirtækisins og veiðst í Mjólká í Arnarfirði. MAST náði að rekja 24 af þeim 43 eldislöxum sem veiddust í Mjólka til sjókvíar Arnarlax sem gat hafði komið á: „Hægt var að rekja 24 þessara laxa í kví nr. 11 á eldissvæði Arnarlax við Haganes í Arnarfirði,“ sagði í frétt á heimasíðu MAST.
Rannsókn MAST hófst því sem rannsókn á slysasleppingum á eldislöxum en svo byrjaði hún að snúast um ranga upplýsingagjöf um fjölda eldislaxa í sjókví. Arnarlax verður því mögulega sektað fyrir röngu upplýsingagjöfina en ekki fyrir slysasleppinguna.
Ef af verður er um að ræða fyrstu sektina sem MAST leggur á sjókvíaeldisfyrirtæki á Íslandi og er sektarboðið því sögulegt. „Við höfum alltaf rannsakað mál í þaula sem komið hafa upp en við höfum ekki lagt sekt á áður,“ segir Karl Steinar um sektina mögulegu.“