Þannig fór um þennan furðulega leiðangur MAST.

Var vonlaust mál fra upphafi einsog allir vissu sem hafa örlitla þekkingu á lögum um tjáningarfrelsið.

Umfjöllun Vísis um þetta fáránlega mál má lesa hér:

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur hætt rannsókn á kæru þriggja starfsmanna MAST vegna aðdróttana um mútuþægni í aðsendri grein á Vísi í sumar. Lögregla segir ólíklegt að málið hefði endað með refsiákvörðun vegna þess að enginn var nafngreindur í greininni. Opinberir starfsmenn þurfi að fara aðrar leiðir en dómsmeðferð við slíkar aðstæður.


Í tilkynningu lögreglustjórans um rannsóknina til Esterar og kærenda sem dagsett er þann 28. nóvember kemur fram að tekin hafi verið skýrsla af Ester og hún neitað sök. Hún hafi vísað til tjáningarfrelsis sem sé verndað í stjórnarskrá og bent á að í grein sinni hafi hún ekki sakað tiltekinn starfsmann um mútur.

Lögreglustjórinn fellst á það í bréfi sínu að „framsetning á svona fullyrðingu á opinberum vettvangi án nokkurra sannana eða röksemda geti verið brot á tilgreindum refsiákvæðum.“ Hins vegar sé það mat lögreglustjóra að slíkar ásakanir eða aðdróttanir þurfi að beinast að tilteknum manni sem gegni opinberri stöðu svo hægt sé að refsa fyrir það. Lögreglustjóri fellst á alvarleika ásakananna en segir að þótt svo að einhverjir starfsmenn taki aðdróttanir meira til sín sé það hans mat að ekki sé nægilega líklegt að málsmeðferð fyrir dómi myndi enda með refsiákvörðun.

„Opinberir starfsmenn þurfa almennt að sæta því að þola óvægna gagnrýni á störf sín. Opinberir starfsmenn þurfa að fara aðrar leiðir en dómsmeðferð meðan gagnrýni eða aðdróttanir eru ekki persónugerðar meira en gert er í þessari grein,“ segir í bréfi lögreglustjórans sem sent var á bæði Ester og kærendur.

Þar er að lokum bent á að hægt sé að kæra þessa ákvörðun til ríkissaksóknara.

Hrönn Jörundsdóttir forstjóri MAST segir að hún og hinir starfsmennirnir tveir séu enn að skoða það hvort þau bregðist við þessari ákvörðun lögreglunnar. Hún gerir ráð fyrir því að fjallað verði um niðurstöðu málsins á vef stofnunarinnar þegar það liggur fyrir.

Hálfgalin herferð
Ester Hilmarsdóttir hefur hafnað því frá upphafi að nokkuð saknæmt hafi verið að finna í skrifum hennar. Hún segir þetta því niðurstöðuna sem hún bjóst við.

„Mér fannst þetta alltaf hálfgalin herferð hjá MAST að ætla að gera þetta sérstaklega þar sem enginn var tilgreindur, eins og kemur fram í tilkynningu frá bréfinu. Frá mínum bæjardyrum séð eru þetta ekkert annað en þöggunartilburðir hjá MAST. Þessi herferð að kæra einstakling fyrir skoðanagrein þar sem enginn er nafngreindur. Auðvitað eru þau bara að reyna að þagga niður í fólki svo þau geti haldið áfram að vinna sem stimplunarverksmiðja fyrir leyfisveitingar.“ …