Hafrannsóknastofnun hefur birt skýrslu um um vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2020. Þar koma meðal annars fram þessar sláandi upplýsingar um stöðu villta íslenska stofnsins:

„Meðaltal göngunnar á tímabilinu 1971‐2019 eru rúmlega 80 þúsund laxar og hrygningarstofn rétt undir 40 þúsund löxum. Síðustu ár hafa þessar tölur verið vel undir meðaltali og árið 2019 var gangan áætluð 35 þúsund fiskar og hrygningarstofninn aðeins 22 þúsund fiskar. Ef þessar tölur eru settar í samhengi við fjölda seiða sem sett voru út í sjókvíar haustið 2020 (11 milljónir seiða) er ljóst að stærðarhlutföll sjókvíaeldis og villtra stofna eru há. Ekki má því mikið út af bregða hvað varðar erfðablöndun eldisfiska við villta stofna laxfiska ef laxar sleppa úr sjókvíum og hrygna með villtum löxum. Hafa þarf í huga að hér á landi er notaður kynbættur norskur lax í fiskeldi.“

Þriggja manna vísindanefnd, sem var skipuð af sjávarútvegsráðherra árið 2020 til að rýna aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar, benti í úttekt sinni á að vöktun og greiningu á göngu eldislaxa í ár hér á landi væri „ábótavant“ því um of væru treyst á sjónræna greiningu. Með orðum nefndarmanna: „Myndkerfi – Þessi kerfi gefa færi á að telja eldisfisk (en erfitt er að greina „snemmsloppinn“ fisk með þessari aðferð) og villtan fisk sem gengur í ár. Þessu kerfi hefur aðeins verið komið á í sex ám til þessa en áform eru um að fjölga þeim í 12. Engin önnur reglubundin slembisýnataka af fullvöxnum laxi fer fram í ám (þótt sýni séu tekin úr grunuðum strokufisk sem veiðist á stöng, sjá hér fyrir neðan) og við teljum þessu vöktunarsviði því ábótavant.“

Í úttekt vísindanefndarinnar er einnig bent á ýmsa fleiri punkta sem munu verða til þess að herða þarf á áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar …ef farið verður eftir þeim:

1) Vegna þess að hér er norskur eldisstofn og hættan því meiri af mögulegri erfðablöndun.
2) Taka þarf smærri ár og læki inn í matið.
3) Litlir og drefðir stofnar líklega í meiri hættu, og þarf því mögulega að sníða staðbundið áhættumat gagnvart þeim.

Og þá segir nefndin að hér vanti áhættumat vegna annarra þátta en burðarþols og erfðablöndunar. Er lúsavandinn í sjókvíaeldinu nefndur sérstaklega.

Í úttektinni er svo lýst yfir þeirri skoðun að áætlun um burðarþol ætti ekki að skoða sem vísbendingu um að ætíð skuli heimila fiskeldi upp að hámarkinu:

„Vísindanefndin hefur bent á að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar í núverandi formi fela þannig ekki í sér heildarmat á mögulegum umhverfisáhrifum stækkandi fiskeldisgreinarinnar á Íslandi, heldur mat á tveimur tilteknum áhrifaþáttum.“

Ár er nú liðið frá því úttekt vísindanefndarinnar var til skilað til ráðherrans sem skipaði nefndina. Síðan þá hefur ekkert verið gert til að bæta umgjörð þessa skaðlega iðnaðar fyrir umhverfið og lífríkið. Það er sorglegur minnisvarði um störf þess sjávarútvegsráðherra sem senn lætur að störfum.