Þörf orð hér hjá Vigfúsi:
Um auðmenn og ímynd
Það er orðið ansi þreytandi að heyra talsmenn sjókvíaeldis tönglast á því að þeir séu að etja kappi við „fámenna klíku auðmanna“. Þessi mantra er skrumskæling á veruleikanum með þann tilgang einan að villa um fyrir vel meinandi fólki. Í raun er málinu þveröfugt farið. Langstærstu hagsmunaaðilar í sjókvíaeldi hér á landi eru erlendir auðkýfingar og örfá handbendi þeirra hér á landi á meðan hagsmunir af villtum laxastofnum dreifast á fjölmargar hendur í mörgum greinum atvinnulífsins. Þeir sem mestan hag hafa af laxveiðitekjum eru bændur sem reyna að halda úti búskapi í afskekktum sveitum en þeir eru langt í frá einu hagsmunaaðilarnir. Afleiddar tekjur af laxveiði eru gríðarlegar og dreifast á flugfélög, hótel- og veitingarekstur, bílaleigur og margt fleira. Þar eru hinir raunverulegu hagsmunaaðilar sem sjókvíamenn eru að ógna. Erlendir laxveiðimenn eru okkar verðmætustu ferðamenn og skilja eftir sig gríðarlegar gjaldeyristekjur sem dreifast á alla þessa aðila – og það án þess að ganga á auðlindina eða náttúruna.
Það er auðvelt að benda á auðuga forréttindapésa í vöðlum með veiðistöng og bera saman við stritandi salt jarðar á Vestfjörðum og hrópa um það hvernig auðvaldið traðkar á verkalýðnum. Þannig var jú taktíkin í Sovétríkjunum og náði til margra sem ekki höfðu betri upplýsingar. En hverjir stóðu að baki þeirri herferð? Sannleikurinn er sá að auðmennirnir sem hagsmuni eiga í baráttu sjókvíaeldis og villtra laxa eru þeir sem standa á bak við sjókvíaeldið. Þeir sem greiða fyrir að veiða villtan lax á Íslandi eru ekki hagsmunaaðilar heldur tekjulind.
Hér er ég aðeins að tala um beinar tekjur af laxveiði en vert er að minnast á annan þátt málsins sem hugsanlega getur reynst enn mikilvægari. Heimurinn hefur verið að vakna til meðvitundar um skaðsemi sjókvíaeldis á umhverfið og sjókvíalax hefur verið að fá fjölmargar falleinkunnir í næringarfræði. Það líður ekki á löngu þar til öllum verður ljóst að laxeldi í opnum sjókvíum er eituriðnaður sem á heima á spjöldum sögunnar sem dýrkeypt lexía. Íslendingar eru nú í aðstöðu til að ákveða hvort þeir vilji vera ruslakista fyrir úrelda norska eldistækni eða taka klára afstöðu gegn sjókvíaeldi og stefna í staðinn á forystuhlutverk í landeldi og jafnvel eldi í lokuðum kerfum í sjó. Markaðssetning á Íslandi reiðir sig fyrst og fremst á hreina náttúru en einnig á menntun, framsýni og frumkvöðlastarf fólksins. Ef við tökum ekki gáfulega afstöðu og horfum til framtíðar mun ímynd Íslands bíða gríðarlega hnekki og þar af leiðandi allur sá iðnaður sem reiðir sig á hreina náttúruímynd og framsýna þjóð. Þegar þetta er tekið inn í myndina stækkar sá hópur til muna sem hagsmuni hefur af heilbrigðum laxastofnum. Villti íslenski laxinn er ekki einkamál Vestfirðinga – hann er hagsmunamál allra Íslendinga.
https://www.facebook.com/vigfus.orrason/posts/10157866462358642?__tn__=H-R