Fréttastofa Stöðvar2 birti þessa athyglisverðu frétt á föstudagskvöld. Þar segir meðal annars frá þeirri furðulegu aðgerð að með tæplega 100 milljón króna framlagi í umhverfissjóð fiskeldisstöðva eru íslenskir skattgreiðendur að niðurgreiða starfsemi fyrirtækja sem eru í eigu feikilega stöndugra norskra félaga. Eins er bent á að fiskeldi er langt í frá ný atvinnugrein. Umhverfissjóður fiskeldisstöðva hefur verið til frá 2008 og saga fiskeldis við Ísland er enn eldri.
Það er rannsóknarefni að skoða hver aðdragandinn var að þeirri ákvörðun að láta skattgreiðendur reiða fram þetta háa framlag. Lögum samkvæmt eiga fiskeldisstöðvarnar sjálfar að standa undir umhverfissjóðnum. Þá er ekki eins og Landssamband fiskeldisstöðva sé á flæðiskeri statt. Sambandið heldur úti skrifstofu með starfsliði og er með fyrrverandi forseta Alþingis á launum sem talsmann og lobbíista.