Sjókvíaeldisfyrirtækin mylja niður þjóðvegakerfið með þungaflutningum, borga ekki tekjuskatt á Íslandi, neituðu að borga hafnargjöld í Vesturbyggð samkvæmt verðskrá sveitarfélagsins (endaði í dómsmáli) og vilja nú að ríkissjóður greiði þrjá milljarða fyrir hafnarframkvæmdir í Bolungarvík.

Hvaða rugl er þetta?

Morgunblaðið fjallar um innviðafjárfestingarkröfur sjókvíaeldisiðnaðarins:

Áform eru uppi um umfangsmiklar framkvæmdir við Bolungavíkurhöfn sem ætlað er að mæta vaxandi umsvifum í atvinnulífi bæjarins, einkum vegna aukinnar verðmætasköpunar af laxeldi á Vestfjörðum.

… Samkvæmt áætlunum felur verkefnið í sér að lengja viðlegukant hafnarinnar um rúmlega 200 metra svo hægt verði að taka á móti stærri skipum, sérstaklega þeim sem tengjast starfsemi laxeldisfyrirtækja.

Auk þess er gert ráð fyrir að breikka og dýpka innsiglinguna og flytja svonefndan Grundargarð. Með þessum breytingum verður hafnarsvæðið betur í stakk búið til að sinna þeirri auknu umferð og starfsemi sem fylgir rekstri Arctic Fish, sem rekur laxasláturhúsið Drimlu á Brimbrjótnum.

Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um 3 milljarðar króna með virðisaukaskatti. Óskað hefur verið eftir því að framkvæmdin verði tekin inn í næstu samgönguáætlun. Hlutur hafnarinnar sjálfrar í kostnaðinum er talinn nema um 800 milljónum króna.