Í öllum verksmiðjubúskap, þar sem gríðarlegur fjöldi eldisdýra er hafður saman, koma upp andstyggilegir sjúkdómar fyrr eða síðar. Intrafish fjallar um ástandið í Chile, þar sem sjókvíaeldisiðnaðurinn leitar nú í örvæntingu að töfralausn vegna þrálátrar bakteríusýkingar sem fer hrikalega með eldislaxana í sjókvíunum en tiltæk bóluefni eru hætt að virka.

Hér við land sögðu meintir sérfræðingar að lús yrði aldrei vandmál í sjókvíaeldi við Ísland. Það reyndist rangt. Matvælastofnun hefur nú gefið út 21 staðbundið leyfi fyrir notkun skordýraeiturs eða lyfjafóðurs sem hellt er beint í opinn sjó í kvíunum í baráttunni við lúsina en hún fer hræðilega með laxinn ef ekki er gripið til aðgerða.

Blóðþorri hafði aldrei greinst í íslensku sjókvíaeldi þar til í nóvember í fyrra þegar þessi illkynja veirusýking barst kví úr kví, firði úr firði, á Austfjörðum með þeim afleiðingum að slátra þurfti öllum eldislaxi á svæðinu, mörg hundruð þúsund fiskum.

Náttúran finnur sínar leiðir til að binda endi á ónáttúrulegar aðferðir manna við matvælaframleiðslu. Þetta höfum við séð gerast aftur og aftur með ómældum skaða fyrir umhverfið, villta lífríkið og eldisdýrin sem níðst er á.

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.