„… sé ekki samstarf og samhæfing milli ráðherra á vettvangi ríkisstjórnarinnar sé ekki hægt að ætlast til þess að ráðuneytin sjálf eigi með sér viðhlítandi samstarf og ef ráðuneytin sjálf hafi ekki með sér samstarf sé ekki hægt að ætlast til þess að það sé þannig hjá undirstofnunum.“

Þessi orð umboðsmanns Alþingis féllu í merkilegu viðtali sem birtist í Speglinum á RÚV í vikunni.

Þau lýsa i hnotskurn hvernig undirstofnanir ráðuneytanna hafa haldið á útgáfu leyfa fyrir sjókvíaeldi á laxi. Þar benda stofnanirnar hver á aðra þegar leyfin eru gefin út þvert á umsagnir um til dæmis vitalög, öryggi sæfarenda og fjarskiptalög.

Þessi ótrúlegu vinnubrögð eru lóðrétt og lárétt í kerfinu.

Þáverandi innviðaráðherra lögfesti þannig strandsvæðaskipulag á Vestfjörðum og Austfjörðum þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar um að það bryti í bága við fyrrnefnd lög.

Viðbrögð ráðuneytisins við ábendingum um þessi augljósu brot á lögum voru að skipa nefnd um „mótvægisaðgerðir.“

Með öðrum orðum, ráðherra kallaði fólk saman til að leggja til leiðir til að fara framhjá landslögum.

Þetta hljómar einsog skáldskapur en er það því miður ekki.

(innviðaráðherrann á þessari vakt var Sigurður Ingi Jóhannsson)