Hugsiði ykkur þennan iðnað!

„Formaður norsku neytendasamtakanna telur að neytendur vilji vita meira um framleiðslu og dýravelferð þegar kemur að því að versla í matinn. Framleiðendur segja engu máli skipta hvort lax sé sýktur eða ekki þegar hann er lagður til munns.“

Neytendasamtökin hér á landi munu örugglega líka láta til sín taka og krefjast sambærilegra merkinga. Það er ekki boðlegt annað en að neytendur sjálfir hafi val um hvort þeir kaupi vöru sem er framleidd með þessum hætti.

Í umfjöllun RÚV segir:

Norsku neytendasamtökin vilja að fiskur sem seldur er úti í búð sé merktur með sjúkdómasögu. Lax sem er seldur sem fyrsta flokks vara gæti hafa borið ýmsa sjúkdóma áður en honum var slátrað til neyslu.

Inger Lise Blyverket, stjórnandi neytendasamtakanna, telur að neytendur vilji þessar merkingar á vöruna. Hún segir við norska ríkisútvarpið, NRK, að norskir matvælaframleiðendur verði að átta sig á því að norskir neytendur vilji vita meira um aðstæður við framleiðslu á matvælum og dýravelferð.

NRK segir viðskiptavini sem fréttastofan gaf sig á tal við í verslunum hafa verið hissa á að engar merkingar væru um að laxinn gæti hafa verið mjög veikur þegar honum var slátrað til manneldis.

Jon Arne Grøttum, stjórnandi Sjømat Norge, bendir þó á að sjúkdómar í laxi geti ekki smitast yfir í menn. „Allt í kringum okkur er morandi af bakteríum og veirum, þær eru alls staðar, svo það skiptir engu máli hvort maturinn er ósmitaður eða ekki,“ hefur NRK eftir honum.

Það sé alveg óhætt að borða fisk sem hafi verið með einhverja sýkingu þegar honum var slátrað, og það hafi engin áhrif á gæði fisksins. Hann segist ekki sjá neina ástæðu til að merkja fiskinn í búðum.