Vestfirski fréttamiðillinn BB birti í gær athyglisverða fréttaskýringu um þær staðsetningar sem eru til skoðunar fyrir mögulegt laxeldissláturhús. Þar eru ofarlega á blaði Grundarfjörður á Snæfellsnesi og Helguvík á Reykjanesi. Það kemur nákvæmlega ekkert á óvart að líklegustu staðsetningarnar fyrir mannaflsfrekasta hluta starfseminnar eru utan Vestfjarða. Það er beinlínis skylda stjórnenda sjókvíaeldisfyrirtækjanna að hámarka gróða þeirra. Þegar leyfi verða komin í höfn mun allt verða gert til að tryggja þá hagsmuni.
Þessi leikur hefur verið spilaður mörgum sinnum áður, í Noregi, Skotlandi og Chile. Iðnaðurinn kemur sér fyrir í nafni atvinnusköpunnar. Störfin eru síðan mun færri þegar á reynir og ekki á þeim stöðum sem lofað var.
Slátrun og vinnsla í Helguvík við hlið alþjóðaflugvallarins í Keflavík myndi ekki bara einfalda flutning til annarra landa og losa burt dýra og erfiða landflutninga heldur líka auka aðgengið að ódýru vinnuafli til muna.
Og þá er rétt er að minna á að tæknin er til staðar fyrir því að fóðrun verði fjarstýrt frá Noregi (eða hvaða öðru landi sem er nettengt við Ísland).
Furðulegt ef einhverjir eru á eftir á Vestfjörðum sem trúa því að sjókvíaeldisiðnaðurinn hugsi um langtímahagsmuni fólksins sem þar býr. Við höfum öll heyrt þessa sögu áður. Líklegasta svisðmyndin er að Vestfirðingar munu sitja eftir með mengunina undir yfirborðinu og stórspillta ásýnd áður friðsælla og fallegra fjarða.