Sjókvíaeldið er byrjað að eyða tekjum sem eru meðal grunnstoða lífsafkomu mörg hundruð bændafjölskyldna.

Hlunnindi af sjálfbærum veiðum stangveiðifólks hafa kynslóð eftir kynslóð skipt sköpum við að tryggja búsetu í sveitum Íslands.

Forráðamenn sjókvíaeldisfyrirtækjanna hafa loks viðurkennt að síendurtekin umhverfisslys, þegar eldisfiskur sleppur úr kvíunum, er óhjákvæmilegur hluti af iðnaðinum.

Munið að þegar þeir tala um að skapa störf í sjávarútvegi þá eru þeir í raun að eyða störfum og verðmætum annarsstaðar um leið og þeir valda óafturkræfum skaða á lífríki landsins.

Vísir talaði við Pete Goss, breskan laxveiðimann sem var nýkominn úr veiðiferð í Húseyjarkvísl í Skagafirði:

„Goss og félagar hans fara á hverju ári til Íslands að veiða og var þetta ellefta sumarið í röð sem þeir félagar veiða í Skagafirðinum enda miklir Íslandsvinir. Goss fékk engan villtan lax á færið að þessu sinni, þessi í stað veiddi hann tvo eldislaxa sem sluppu úr kví í Patreksfirði síðsumars. Goss lýsti fyrir fréttamanni eftirvæntingunni þegar stærðarinnar lax beit á honum.

„Þetta var kröftugur fiskur og ég var afar spenntur, eins og gefur að skilja, því þetta er ástæðan fyrir því að við ferðumst alla þessa leið til að vera í þessari fallegu á en þegar við lönduðum honum kom í ljós að þetta var norskur eldislax,“ segir Goss sem trúði vart eigin augum.

„Ég var alveg miður mín.“

Goss og félagar voru ekki sáttir því kostnaður við veiðiferðirnar getur hlaupið á milljónum.

„Við borgum fyrir að fara til Íslands vegna hreinleika kerfisins og ánna en upplifunin var allt öðruvísi í ár. Því ég veiddi tvo svona eldislaxa og engan villtan lax.“

Nú hugsi hann sig tvisvar um varðandi það að leggja í aðra Íslandsferð næsta sumar og sér í lagi ef ástandið versnar sem honum finnst mikil synd því fjölmargir reiði sig á tekjur af því að þjónusta stangveiðimenn og í gegnum árin hefur hann myndað traust vinasamband við marga Íslendinga og því hrýs honum hugur við erfðablöndun norska eldislaxins og þess villta íslenska. Stangveiðimenn vilji ekki sjá eldislaxa.

„Þetta er lifibrauð bænda, leiðsögumanna og fyrirtækja sem þjónusta stangveiðimenn. Svo mun þetta hafa keðjuverkandi áhrif og koma illa við veitingamenn og svo framvegis. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta algjört reiðarslag.“