„Það sem magnað er að sjá að þetta fyrirtæki virðist frekar harma það að Matvælastofnun sé að gera þá ábyrga og láta þá borga sekt og virðast hafa meiri áhyggjur af því en þeirri staðreynd að hér hafi 80 þúsund eldislaxar sloppið út í náttúruna,“ segir Elvar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri NASF í þessu fréttaviðtali og bendir réttilega á forherðingu þessa skaðlega iðnaðar.
Elvar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna segir myndefni frá Dýrafirði sýna steindauðan hafsbotn undir laxeldiskvíum sem jafnvel hafa verið í marga mánuði í hvíld. Þetta kemur fram í Fréttavaktinni í kvöld en horfa má á viðtalið neðst í fréttinni.
Hann segir slysasleppingu 80 þúsund eldislaxa í Arnarfirði ekki vera tekna nógu alvarlega. Íslenskir firðir, eystra og vestra, ráði ekki við mengunina af völdum eldisins.
„Það þarf ekki að horfa langt til þess að sjá að þetta hefur hvergi komið sér vel fyrir umhverfið. Í öllum löndum þar sem þessi iðnaður hefur verið stundaður er það sama sagan, það eru erfðablandaðir laxastofnar, það er mikil mengun, það eru neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og þess vegna er óskiljanlegt að við séum á sömu vegferð hér.“ …
„En við höfum séð á nýlegu myndefni frá Veigu Grétarsdóttur kajakræðara og umhverfisverndarsinna að botn undir kvíum í Dýrafirði sem er búinn að vera hvíldur mánuðum saman er ennþá ein stór bakteríumotta þar sem ekkert annað þrífst, steindauður botn.“
Þetta er úrgangur úr fiskunum?
„Úrgangur úr fiskunum, fóðurleifar. Af því að það sem er svolítið merkilegt við sjókvíaeldi er að allt sem fer ofan í kvína endar á hafsbotni og þeir eru ekki ábyrgir fyrir því. Úrgangurinn safnast bara upp.“