Á vef RÚV er frétt um að fjórar kýr hafi drepist í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Svona fréttir skipta okkur máli. Þær eru lýsandi fyrir hversu óblíð náttúruöflin geta verið hér á landi. Aðrir fjölmiðlar en RÚV hafa fjallað um hamfarirnar sem eru í gangi á eldissvæði Arnarlax í Arnarfirði. Þar er staðfest að hátt í 100 þúsund laxar hafa drepist undanfarnar vikur vegna þess aðbúnaðar þeim er gert að þrífast við í sjókvíunum.

Líklega er sú tala miklu hærri, sé miðað við þann fjölda innlendra og erlendra skipa sem hefur verið stefnt á svæðið. Athugum að þessi tala um fiskidauðann var komin fram áður en óveðrið í gær gekk yfir.

Þessi grein úr norska miðlinum Dagens Næringsliv er góð áminning um að ekki eigi að hugsa um skepnur jarðar sem lífmassa eða tonn.

Sjókvíaeldi á laxi er skelfilegur búskapur í samhengi við alla aðrar matvælaframleiðslu. Afföllin eru hrikaleg, vegna laxalúsar, sjúkdóma og vetrarsára einsog er nú verið að glíma við fyrir vestan.

Af hverju er þessi aðferð þá notuð? Ástæðan er ein og aðeins ein, þetta er ódýrasta leiðin við að framleiða lax. Þessi fyrirtæki fá að láta alla mengun streyma beint í sjóinn, sleppifiskur ógnar villtum stofnum og hagnaðurinn er svo mikill að þeim er sama þó þeir viti að um og yfir 20 prósent eldisdýranna drepist á þeim tíma sem þau eru í sjókvíunum. Þetta er skammarlegt.