Sjókvíaeldi á laxi hefur margvísleg slæm áhrif á umhverfið. Mengunin í nágrenni kvíanna og skaðinn sem sleppifiskurinn veldur villtum stofnum er það sem þarf að glíma við innanlands en afleiðingarnar teygja sig mun lengra. Stórfelld skógareyðing hefur átt sér stað í Amazonskóginum til að að ryðja land undir ræktun sojabauna sem fara í fóður fyrir eldislax. Skógareyðingin ein og sér er hörmuleg en til að bæta gráu ofan á svart þá myndi þetta prótein nýtast betur til manneldis.
Til að framleiða eina máltíð af eldislaxi þarf prótein sem myndi annars duga í tvær til þrjár máltíðir.
Þarna er sem sagt verið að nota ódýrt prótein til að framleiða prótein sem er lúxusvara.
Mikilvægt er að átta sig á því að laxeldi er bara lítill hluti af því fiskeldi sem stundað er í heiminum. Langstærsti hluti þess er eldi á fisktegundum sem lifa á fæði sem ekki myndi nýtast til manneldis, ólíkt því sem á við um afurðirnar sem notaðar eru til að framleiða fóður fyrir eldislaxinn.
Þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga þegar við bregðumst við þeirri umhverfisvá sem stendur fyrir dyrum:
„Meira en milljón dýra- og plöntutegundir eru í útrýmingarhættu og það er að mestu mannanna verk, að sögn vísindamanna. Náttúrunni hnignar hraðar en áður og staðan verri en nokkru sinni í sögu mannkyns.
Maðurinn og mikil og eilíf þörf hans fyrir mat og orku veldur miklu álagi á vistkerfi jarðar og það hefur aldrei verið meira en nú. Og það er sama hvert litið er, í lofti, á láði og legi ógnar hann lífinu í kringum sig. Mannfjöldi á jörðinni hefur tvöfaldast frá 1970 og hagkerfi heimsins fjórfaldast. Regnskógarnir hverfa hratt og aðeins brot þess votlendis sem var hér fyrir 250 árum er eftir. Það er því þrengt að fjölda dýra- og plöntutegunda og heimkynni þeirra og vistkerfi á undanhaldi. Í dag var birt skýrsla sem unnin er af alþjóðastofnun um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi sem heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar og skýrsluhöfundar draga upp dökka mynd af stöðunni.“