Ingibjörg G. Jónsdóttir, sjávarvistfræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, bendir á hættuna sem þorskstofninn er í vegna sjókvíaeldis á laxi og regnbogasilungi, i meðfylgjandi viðtali sem birt var í sjómannadagsblaði 200 mílna.
Við hjá IWF höfum ítrekað vakið athygli á að sjókvíaeldi getur raskað umhverfi uppeldisstöðva þorskseiða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þorskstofninn, einn mikilvægasti nytjastofn landsins.
Með miklum ólíkindum er hversu óvarlega stjórnvöld hegða sér þegar þessi hætta er vel þekkt. Og þá ekki síður að Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir sjókvíaeldisiðnaðinn, sem ógnar beinlínis einu mikilvægara fjöreggi þjóðarinnar.
Ingibjörg svarar spurningu Morgunblaðsins um hvað séu alvarlegustu áskoranir þorskstofnsins:
„Sjókvíaeldi og nýting kalkþörunga hafa áhrif á lífríkið á hafsbotni og getur raskað umhverfi þorskseiða sem um sinn hefur áhrif á þorskstofninn, sem er einn mikilvægasti nytjastofn landsins. …
„Ein helsta áskorun þorskstofnsins er líklega loftslagsbreytingar. Ef hitastig sjávar hækkar mun það sennilega leiða til norðlægari útbreiðslu þorsksins. En á sama tíma hefur hækkandi hitastig neikvæð áhrif á mikilvægar fæðutegundir þorsks; rækju og loðnu, sem báðar eru kaldsjávartegundir. Útbreiðsla og göngur loðnu hafa nú þegar breyst og hefur aðgengi þorsks að henni því minnkað,“ svaraði hún en sagði jafnframt áskoranir stofnsins flóknar og fjölmargar.
„Annað sem vert er að nefna er uppeldissvæði þorsks en eftir sviflægt lirfustig tekur ungviði botn á landgrunninu og inni á fjörðum og flóum. Á þessum svæðum gætir áhrifa mannsins.“ Benti hún á að fiskeldinu fylgi aukinn lífrænn úrgangur sem geti haft neikvæð áhrif á lífríkið auk þess sem notkun lyfja hefur neikvæð áhrif á hryggleysingja sem eru mikilvæg fæða þorskseiða.
Þá er nýting kalkþörungasvæða sömuleiðis áhrifaþáttur en þau eru mikilvæg búsvæði seiða.“