Við viljum vekja athygli á þessum degi sem haldinn er í Svíþjóð 9. október og hvetja fólk hér til að taka þátt líka og sniðganga eldisrækju sem framleidd er í hitabeltinu.

Stefán Gíslason fór yfir málið í pistli sem var fluttur á Rás 1. Margt kunnuglegt kom þar fram. Meðal annars þetta:

„Kannski halda sumir að risarækjueldi sé nauðsynlegur hluti af því að afla mannkyninu fæðu, þar sem ofveiði í heimshöfunum er sístækkandi vandamál. En sú er heldur ekki raunin. Þvert á móti eykur rækjueldið á ofveiðina, því að fóðrið í eldinu er einmitt að stórum hluta sótt í sjávarfang sem annars hefði e.t.v. nýst til manneldis. Fiskur sem áður var ódýr uppspretta próteins fyrir fólkið á þessum svæðum er nú stappaður í fóður fyrir rækjurnar.“

Svipað á við um laxeldi. Til að framleiða eina máltíð af eldislaxi þarf prótein og næringarefni sem myndu duga í þrjár til fjórar máltíðir fyrir fólk. Ódýr prótein sem myndu duga mörgum eru gerð að lúxusvöru fyrir fáa.

Í umfjöllun RÚV segir m.a:

Nú er von að spurt sé hvers vegna risarækjur séu svona afleitar. Því er til að svara að risarækjueldi fer fram á strandfenjasvæðum, eða í mangroves eins og þessi svæði eru nefnd í alþjóðlegri umræðu. Reyndar er réttara að segja að eldið fari fram á fyrrverandi strandfenjasvæðum, því að lífríkinu sem þar þrífst er rutt í burtu til að rýma fyrir eldiskerjunum. …

Strandfen eru ekkert venjuleg vistkerfi. Þar þrífst gríðarlega flókið lífkerfi sem nýtir sér þessi mót sjávar og ferskvatns. Þarna vaxa leiru- og fenjaviðarskógar í grunnu hálfsöltu vatni og inn á milli plantnanna þrífst gríðarlega fjölbreytt samfélag af fiskum, rækjum, krabbadýrum og ýmsum smærri dýrum. Fenin eru í senn hrygningarstöðvar þessara lífvera, uppeldisstöðvar og matarbúr. Og lífríkið sem þrífst á þessum svæðum er líka undirstaða lífríkisins í hafinu fyrir utan og á landi, í árósum og á votlendi nálægt ströndinni. Allt þetta víkur fyrir risarækjueldinu.

Mikil loftslagsáhrif

Til viðbótar því sem hér hefur verið talið hefur röskun strandfenjanna í för með sér gríðarlega losun kolefnis út í andrúmsloftið. Það flókna kerfi sem lagt er í rúst með risarækjueldinu samanstendur nefnilega ekki bara af einstaklega fjölbreyttu lífríki, heldur er leðjan á botninum kolefnisbanki sem safnað hefur innstæðu í þúsundir ára. Sem dæmi um mikilvægi strandfenjanna hvað þetta varðar, er talið að strandfenin bindi um það bil fjórfalt meira kolefni en jafnstór regnskógur á landi. Þetta kolefni losnar út í andrúmsloftið sem koldíoxíð þegar fenjunum er rótað upp í þágu rækjueldisins. …

Hvaðan kemur fóðrið?

Kannski halda sumir að risarækjueldi sé nauðsynlegur hluti af því að afla mannkyninu fæðu, þar sem ofveiði í heimshöfunum er sístækkandi vandamál. En sú er heldur ekki raunin. Þvert á móti eykur rækjueldið á ofveiðina, því að fóðrið í eldinu er einmitt að stórum hluta sótt í sjávarfang sem annars hefði e.t.v. nýst til manneldis. Fiskur sem áður var ódýr uppspretta próteins fyrir fólkið á þessum svæðum er nú stappaður í fóður fyrir rækjurnar. Og í þokkabót er mikið af þessum rækjufóðursfiski veiddur í troll, sem gera engan greinarmun á stórum og smáum fiski. Það er sem sagt ekki nóg með að eldið eyðileggi fæðuuppsprettu lífríkisins í hafinu fyrir utan, heldur er það lífríki sem eftir stendur líka „ryksugað upp“ í þágu eldisins. …

Sýklalyfjanotkun

Til viðbótar öllu því sem hér hefur verið nefnt, þá fylgir rækjueldinu mikil efnamengun. Í þessu eldi eru nefnilega notuð sýklalyf og önnur tilbúin efni til að fyrirbyggja sjúkdóma í eldinu, eða með öðrum orðum til að koma í veg fyrir að rækjurnar drepist áður en þeirra tími er komin. Þessi lyfjanotkun stuðlar að vaxandi sýklalyfjaónæmi sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur vera eina mestu heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Sömuleiðis eru sterk hreinsiefni notuð til að hreinsa eldiskerin og verja þau fyrir „óæskilegum“ dýrum og plöntum. Þessi efni berast svo óhjákvæmilega í vatnsvegi, brunna og út í sjó. Eftir nokkurra ára notkun getur svo þurft að afleggja eldissvæðin og flytja þau á nýjan stað, eða þá að minnka þéttleikann til að geta notað svæðin lengur. Það útheimtir náttúrulega að ný svæði séu tekin undir eldi til að halda framleiðslunni stöðugri, hvað þá ef eftirspurnin eykst.“