„Gagnrýnendurnir hafa rétt fyrir sér, það er kominn tími til að „loka“ sjókvíaeldi á laxi.“
Þetta er fyrisögn greinar sem birtist í Intrafish, virtasta sjávarútvegsfjölmiðili heims, skrifuð af Drew Cherry, sem hefur verið ritstjóri laxeldisfrétta miðilsins um langt árabil.
Hrakandi heilsa eldislaxanna í sjókvíunum vísar aðeins í eina óhjákvæmilega átt segir ritstjórinn, og telur upp „stjarnfræðilegan“ kostnað af lúsafári af áður óþekktu umfangi, skelfilega útbreidd vetrarsár á fiskinum, auk sjúkdóma, marglyttna og þörungablóma sem drepa eldislaxana í stórum stíl.
Niðurstaðan hlýtur að vera lokuð kerfi, ætli fyrirtækin sér að halda áfram að ala lax í sjó.
Útibú norsku sjókvíaeldisrisana sem starfa hér við land, Arctic Fish, Arnarlax og Kaldvík auk hins ísfirska Háafells, þekkja óþægilega náið sjúkdóma- og hamfaralistann hér að ofan.
Sorglegt er að hlusta á fólk, sem á að vita betur, afneita því sem er aðeins hægt að kalla neyðarástand. Engar líkur eru á að þetta lagist. Ástandið versnar bara ár frá ári.
Reynt hefur verið að stunda sjókvíaeldi á laxi við Ísland í um 35 ár. Dauði eldislaxa í sjókvíum við Ísland hefur aldrei verið hrikalegri en á þessu ári.
Ekki er við þetta búið lengur. Það verður að grípa í taumana.