Eftir nokkra mánuði hefjast framkvæmdir við landeldistöð í Maine í Bandaríkjunum sem mun framleiða 50 þúsund tonn af laxi á ári. Til að setja þá tölu í samhengi þá var framleiðsla sjókvíaeldisfyrirtækjanna hér við land á síðasta ári í kringum 15 þúsund tonn (eftir því sem næst verður komist) og ef farið verður eftir mati Hafró verður framleiðsla í sjókvíum hér við land ekki meiri en 71 þúsund tonn á ári.
Þetta er ekki eina stóra landeldisstöðin sem mun rísa í Maine. Það er verið að byggja aðra risavaxna slíka stöð um 30 km frá þessari.
Þarna liggur framtíðin í laxeldi sem ógnar ekki umhverfi og lífríki með sama hætti og opið sjókvíaeldi gerir. Affall frá þessum stöðum verður hreinsað og nýtt sem verðmætur áburður í landbúnaði en ekki dembt beint í sjóinn með miklum skaða fyrir umhverfið eins og tíðkast í opnu sjókvíaeldi.
Á sama tíma og þessi þróun er á fleygiferð úti í heimi leyfir Einar K. Guðfinnson, stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva, sér að koma fram og gera lítið úr henni og beinlínis skrifa gegn framþróuninni. Það er sorglegt þegar von um stundargróða blindar mönnum sýn á hvernig hægt er að standa að málum án þess að það sé á kostnað náttúrunnar.