Kjarninn segir frá hrikalegu umhverfisslysi við Noreg þegar tugþúsundir eldislaxa sluppu úr sjókví á dögunum. Samkvæmt opinberum tölum sluppu um 39.000 eldislaxar. Tekist hefur að fanga um 13.200.

Heimildarmenn okkar í Noregi segja að líklega hafi miklu fleiri laxar sloppið en gefið er upp og benda á að afar sjaldgæft er ef meira en 10 prósent veiðist af eldislaxi sem sleppur.

Sleppilaxinn úr sjókvíaeldinu hefur dreift sér yfir stórt svæði við strönd Noregs og óttast heimafólk mjög að hann eigi eftir að ganga upp í fjölmargar ár og blandast villtum laxi með skelfilegum afleiðingum fyrir getu þeirra til að lifa af í náttúrunni.

Skv. umfjöllun Kjarnanans:

„Um 39 þús­und lax­ar, lík­lega sam­tals um 180 tonn, sluppu úr sjó­kvíum fyr­ir­tæk­is­ins Mid­t-Norsk Havbruk AS við eyj­una Dolma í Þrænda­lögum í ágúst. Um leið og atvikið upp­götv­að­ist var haf­ist handa við að reyna að fanga lax­ana en það skil­aði litlu og fékk fyr­ir­tækið fram­lengdan frest yfir­valda til verks­ins. Nú er hins vegar ljóst að aðeins hefur tek­ist að ná rúm­lega 13.200 löxum eða um þriðj­ungi þeirra sem sluppu.

Lax­arnir hafa dreifst um stórt svæði, synt norður á bóg­inn og „leit­ar­svæð­ið“ því verið stækkað enda þekkja fiskar engin sýslu­mörk frekar en önnur dýr. …

Yfir­völd í Nor­dland-­fylki segja að lax­ana megi finna í miklum mæli allt frá Þrænda­lögum til Rana í norðri og og í öllum fjörðum á þeim slóð­um. Þá hafa margir þeirra sést í vatns­föllum og árós­um. Í mynni Loms-ár­innar í Vel­firði hafa til að mynda um 700 eld­is­laxar verið veidd­ir.“