Matvælastofnun (MAST) gaf í dag út rekstrarleyfi til Arctic Sea Farm fyrir stórauknu sjókvíaeldi á laxi í Dýrafirði. Þetta er vægast sagt sérstakur gjörningur því fyrirtækið hefur sýnt að því er ekki treystandi til að sinna þessum rekstri. Síðast í desember sendi Umhverfisstofnun Arctic Sea Farm (ASF) boðun um áminningu og kröfu um úrbætur vegna brota á starfsleyfi sem það hefur fyrir sjókvíaeldi í Dýrafirði.

Brotin voru mörg:

– ASF var með of mikið af eldislaxi í sjókvíunum
– Mengunin sem fór í sjóinn var yfir mörkum.
– ASF sinnti ekki skyldubundinni sjósýnatöku.
– ASF notaði koparhúðuð net í sjókvíunum þó beinlínis sé tekið fram í starfsleyfinu að það er óheimilt.

Fyrirtækið sinnt svo engu áskorunum Umhverfisstofnunar um að bæta ráð sitt og sendi stofnunin því boð um áminningu og ítrekaði kröfur um úrbætur í desember.

Það segir allt sem segja þarf um aðhaldið með þessari starfsemi að nú hefur ASF verið gefin heimild til að tvöfalda sjókvíeldi sitt í Dýrafirði.

Þetta er sorgardagur fyrir íslenska náttúru og lífríki.