Við hjá IWF höfum ítrekað bent á í umsögnum okkar til ýmissa stofnana og matvælaráðuneytisins að þörf sé á áhættumati vegna lúsasmits í sjókvíaeldi. Á þetta hefur ekki verið hlustað frekar en svo margt annað.

Matvælastofnun (MAST) hefur kerfisbundið vanmetið áhættuna af lúsinni og því haft rangt fyrir sér nánast að öllu leyti í þessum efnum.

Lúsin úr sjókvíaeldinu strádrepur seiði villta laxins og hefur hræðileg áhrif á fullorðinn sjóbirting.

Skv. Umfjöllun RÚV:

„Samkvæmt nýrri könnun Náttúrustofu Vestfjarða er lítið um sjávarlús á villtum laxfiskum í fjörðum þar sem ekkert laxeldi er og áhættan af þeim lítil sem engin. Aftur á móti sýnir vöktun á laxalús á villtum laxfiskum í Arnarfirði og Dýrafirði, þar sem laxeldi er í sjókvíum, að þar er áhættan af lúsinni mjög mikil, eða allt að 85%.

Margrét Thorsteinsson, landfræðingur, kannaði laxalús á villtum laxfiskum í Jökulfjörðum fyrir Náttúrustofu Vestfjarða. „Það var lítið af lúsum á sjóbleikjum sem veiddust í Leirufirði og það mældist minna en í öðrum fjörðum á Vestfjörðum, sem sýnir að sjávarlúsaálag er meira á svæðum þar sem eru opnar sjókvíar með laxfiska,“ segir Margrét.

Þetta sé þó ekki algilt. „Hins vegar ber að geta að ég skoðaði Eskifjörð 2020 og þar fann ég bara eina laxalús á sjóbleikjunum,“ segir Margrét, en þar er laxeldi í sjó.“