„Það er ekki hægt að senda alla reikningana fyrir að flytja lax í flug eða ferðamenn austur í Vík til skattgreiðenda. Það verður að taka það einhvern veginn af notendum mannvirkjanna, vegna þess að þeir eru ekki endilega skattgreiðendur hér.“
Þessi orð lét Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor falla í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun í umræðum um bágborið ástand þjóðvega landsins og hvaða aðgerða þarf að grípa til við að rétta af gríðarlega innviðaskuld sem hlóðst upp á vakt fyrri ríkisstjórna.
Þetta er réttmæt ábending sem lesendur þessarar síðu kannast vel við.
Alþekkt er að ástand vega er sérstaklega slæmt á Vestfjörðum. Þar þurfti til dæmis Vegagerðin í fyrra að fjarlægja bundið slitlag af vegum á sunnanverðum Vestfjörðum og breyta í malarvegi. Í frétt á vef RÚV um þessar framkvæmdir nefndi svæðisstjóri Vegagerðarinnar sérstaklega þungaflutninga með sjókvíaeldislax sem ástæðu fyrir þessu afleita ástandi á svæðinu. Útskýrði hann að einn hlaðinn flutningabíll slíti vegum á við 10.000 fólksbíla.
Þessir bílar eyðileggja vegi sem sagt í veldisvexti miðað við þyngd.
Í fréttum RÚV kom líka fram að fyrir þremur árum þurfti að endurbyggja fimm kílómetra vegkafla um Mikladal, milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar, eftir að vegurinn hrundi. Akkúrat á þessum kafla eru gríðarlegir þungaflutningar með sjókvíaeldislax.
Nefndi svæðisstjórinn að endurbygging vegarins um Mikladal hefði tekið stóran hluta af fjármagni til styrkingarverkefna á Vesturlandi og Vestfjörðum. Því til viðbótar hefur kostnaður við holufyllingar á Vestfjörðum fimmfaldast á síðustu árum, en á því tímabili hefur framleiðsla á sjókvíaeldislaxi þrettánfaldast á svæðinu.
Undanfarin á hafa að meðaltali hvern einasta dag ekið um fjórir fullfermdir þungaflutningabílar með sjókvíaeldislax um vegi Vestfjarða. Það er á við umferð 13,9 milljón fólksbíla á ári.
Auðvitað eyðileggur slík umferð þjóðvegakerfið. Það væri fásinna að taka ekki með í dæmið við kostnað þjóðfélagsins af sjókvíaeldinu þær gríðarlegu skemmdir sem þungaflutningar einkafyrirtækja valda á vegum fyrir vestan.
Vegir sem ætlaðir eru til þungaflutninga af þessu umfangi, þurfa bæði betri undirbyggingu og betra slitlag.
Að byggja vegi fyrir slíka bíla kostar gríðarlegar upphæðir. Örugglega mun hærri en takmarkað auðlindagjald sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða nú í ríkissjóð. Þangað hefur aðeins eitt sjókvíeldisfyrirtæki greitt tekjuskatt (og það aðeins afar hóflegar upphæðir tvisvar sinnum) frá árinu 2007 þegar elsta fyrirtækið í þessum iðnaði var stofnað.
Myndin er af trukki af stærstu gerð merktum Arctic Fish sem hefur aldrei greitt tekjuskatt á Íslandi. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu norska sjókvíaeldisrisans Mowi og er skráð í kauphöllinni Osló.
Arctic Fish hefur ítrekað misst frá sér eldislax sem gengið hefur upp í íslenskar ár. Fyrirtækið hefur neitað að borga bændum fyrir að hreinsa þennan sleppifisk úr ánum og eru þeir því nú tilneyddir til að hefja innheimtumál á hendur þessum norskættaða iðnrisa fyrir dómstólum.
Yfirgangur þeirra sem stýra þessum félögum hefur verið með miklum ólíkindum. Þeir fengu meðal annars sér handgengna stjórnmálamenn til að taka úr sambandi grundvallarlög landsins um varnir gegn mengun hafs og stranda og setja lög sem heimila gríðarlega mengun frá sjókvíunum í firði landsins. Þau hafa neitað að greiða sveitarfélögum hafnargjöld eftir verðskrá og vilja mylja niður vegi.
Skattborgarar landsins og náttúran eru látin niðurgreiða starfsemina. Þetta er pilsfaldakapítalismi í sinni tærustu mynd.
MYND
https://www.facebook.com/icelandicwildlifefund/posts/1205348744968651