Fyrirsjánlegt er að hraðinn á fækkun starfa í kringum sjókvíaeldi mun snaraukast á allra næstu árum. Stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki heims, Mowi, boðar nánast byltingu í þeim efnum í viðamikilli kynningu sem það var að senda frá sér aðeins nokkrum dögum eftir tilkynningu um niðurskurð sem hafinn er á starfsliði fyrirtækisins um allan heim.

Fjallað er um í þessari frétt iLaks hvernig hugbúnaður knúinn áfram af gervigreind, vélanám (machine learning) og sjálfvirknivæðing mun sjá til þess að mannshöndin mun ekki koma við sögu í fjölmörgum verkum í þessum iðnaði.

Þegar liggur fyrir að stór hluti af störfum, sem áður þurfti að sinna á staðnum, er nú fjarstýrt af fólki sem situr við tölvuskjái. Fiskeldi Austfjarða kynnti árið 2018 áætlanir um að fjarstýra fóðrun eldialaxa í austfirskum fjörðum frá Noregi (þar sem móðurfélagið er staðsett), en hætti svo við, enda hvarf þar gulrótin sem fyrirtækið dinglar framan í sveitarstjórnarfólkið og aðra bláeyga stjórnmálamenn um að þessi iðnaður snúist um að skapa störf fyrir íbúa í sjávarbyggðum.

Engin ástæða er til að efast um að um leið og öll tiltæk leyfi eru í höfn, mun þessum áformum verða hrint í framkvæmd og gott betur. Líklega þarf ekki einu sinni fólk við skjáina miðað við framtíðarsýnina sem forstjóri Mowi boðar í greininni hér fyrir neðan. Þau sem enn trúa á störf fyrir sjávarbyggðir ættu að lesa hana.

Líklegasta sviðsmyndin fyrir þennan iðnað hér er sú að öllu því sem hægt er að fjartstýra verður fjartstýrt frá Noregi (af fólki eða vélum), sláturhúsin verða sem næst alþjóðaflugvellinum í Keflavík, annars vegar í Þorlákshöfn á suðurströndinni fyrir eldið á Austfjörðum og hins vegar í Helguvík fyrir sjókvíaeldið á Vestfjörðum. Örfá störf verða í fjörðunum sjálfum. Byggðarlögin þar munu aftur á móti sitja eftir með drulluna sem lekur úr netapokunum, stórskaðað lífríki, skelfilega sjónræna mengun af sjókvíum með viðhengjum, fóðurprömmum og flóðljósum.

Sanntidsovervåking av biomasse, digital lusetelling og autonom fôring. Mowi vil digitalisere hele verdikjeden