Umhverfisstofnun hefur á síðustu misserum tekið upp á því að fallast á breyta starfsleyfum sjókvíaeldisfyrirtækja afturvirkt og heimila notkun netapoka með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð. Hefur það verið gert þvert á bann við notkun slíkra netapoka í fyrri starfsleyfum þar sem tekið hefur verið fram að fyrirtækin hafi ekki heimild að losa í sjó efni, svo sem kopar og önnur efni sem talin eru upp í listum reglugerðar um varnir gegn mengun vatns.
Þessi furðulegu vinnubrögð stofnunarinnar eru enn óútskýrð. Sjókvíaeldi er mengandi iðnaður sem skaðar lífríkið og umhverfið. Engin ástæða er til að gefa sjókvíaeldisfyrirtækjunum minnsta afslátt af því að virða þau skilyrði sem þau gengust undir við útgáfu á starfs- og rekstrarleyfum.
Í Noregi, þar sem sjókvíaeldið á sér lengri og umfangsmeiri sögu en hér við land, er ástandið fyrir allnokkru orðið þannig að rauð viðvörunarljós blikka vegna óásættanlegrar koparmengunar í fjörðum landsins frá sjókvíaeldinu.
Norska Hafrannsóknastofnunin vakti athygli á þessari stöðu í umfjöllun á vefsvæði sínu í fyrra. Þar kemur fram að kopar frá sjókvíaeldisiðnaðinum mengar hafsbotninn og nágrenni sjókvía sem húðaðar eru með koparoxíði og að ekki sé til staðar næg þekking á afleiðingum þess og því beri að fara varlegar en gert hefur verið.
Í umfjöllun norsku Hafrannsóknastofnuninni er bent á að ef fyrirtæki með starfsemi á landi verða uppvís að því að losa umfram tvö kíló af kopar í umhverfið á ári er þeim lokað af yfirvöldum.
Sjókvíaeldið losar 1.700 kíló á ári í sjó við Noreg. Þar kemur líka fram að rannsóknir sýna að um 80 prósent af kopar, sem er að finna í ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð, losnar í hafið.
Af þessum ástæðum hafa sjókvíaeldisfyrirtæki við Ástralíu og Nýjasjáland hætt notkun ásætuvarna með koparoxíði. Vitað er að þessi þungmálmur hefur skaðleg áhrifa á umhverfið og lífríkið.
Það er nefnilega þekkt og staðfest að kopar er hættulegur lífríkinu. Kopar leysist ekki upp og hverfur af sjálfu sér í umhverfinu. Engin ástæða er til ætla annað en að kopar muni hlaðast upp af sífellt vaxandi magni með tímanum í setlögum og öðru umhverfi sjókvíaeldissvæða í íslenskum fjörðum vegna notkunar á eldisnótum með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.
Í „Umhverfismatsskýrslu burðarþols og áhættumats erfðablöndunar“ sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Atvinnuvegaráðuneytið og Hafrannsóknastofnun síðastlið haust og lögð var fram í Samráðsgátt stjórnvalda, er ekki einu orði vikið að koparxíðmengun frá sjókvíaeldi. Er það aðeins einn af fjölmörgum stórum göllum á þeirri vondu skýrslu.