Rifjum þetta upp. Hvað þeir sögðu um sjókvíaeldi á laxi og hvað hefur svo gerst.
Þeir sögðu að það yrði engin lús.
Lúsafárið hefur verið svo slæmt að Matvælastofnun hefur þurft að gefið út 21 staðbundin leyfi fyrir notkun skordýraeiturs eða lyfjafóðurs í sjókvíunum. Eitrinu er hellt í opinn sjó í kvíunum og berst þaðan óhindrað út í umhverfi. Sár á eldisdýrunum í kvíunum hafa verið svo slæm að dýralæknar hafa óttast um velferð þeirra.
Þeir sögðust ekki ætla að nota koparhúðuð net.
Arnarlax hefur notað net með koparoxíðhúðun í níu ár þrátt fyrir að skýrt væri tekið fram í starfsleyfum og notkun þeirra væri bönnuð. Þetta segir Hafrannsókn um koparinn:
„Notkun ásætuvarna sem innihalda kopar bætist við aðra álagsþætti sem tengjast fiskeldi, og hafa neikvæð áhrif á hryggleysingja í þessum sömu fjörðum.“
„Samkvæmt öryggisupplýsingum Netwax E5 Greenline ásætuvarnarinnar kemur fram að varan flokkast í áhættuflokkana H400 og H410 (H phrases Physical Haxards). H410 stendur fyrir að efnið sé mjög eitrað í vatni/sjómeð langvarandi áhrifum (very toxic to aquatic life with long lasting effects) og H400 stendur fyrir því að efnið sé mjög eitrað lífi í vatni/sjó (very toxic to aquatic life).“
Þeir sögðu að kvíarnar væru svo góðar að fiskur myndi ekki sleppa.
Eldislaxar hafa veiðst í íslenskum ám mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá eldissvæðum. Þeir sem veiðast eru bara toppurinn á ísjakanum segir sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
Þeir sögðu að það yrði ekki erfðablöndun.
Hafró hefur staðfest erfðablöndun eldislax og villts lax í laxastofnum á Vestfjörðum. Í Noregi bera um 67 prósent villtra stofna merki erfðablöndunar við eldislax.
Þeir sögðu að landeldi væri ekki raunhæfur valkostur í stað eldis í opnum sjókvíum.
Umfangsmikið og arðbært landeldi hefur verið stundað lengi hér á landi, til dæmis á vegum Samherja fiskeldis í Öxarfirði og á Reykjanesi. Öflugir fjárfestar eru komnir af stað með landeldi á sem verður álíka mikið að magni og ársframleiðsla í sjó. Ólíkt sjókvíaeldinu sendir landeldið ekki lífríkinu og umhverfinu reikninginn fyrir starfsemi sinni.
Þeir segja að lífríkinu stafi engin hætta af laxeldi í opnum sjókvíum.
Norðmenn með alla sína reynslu hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif allt lúsaeitrið og mengunin frá kvíunum hefur á villta nytjastofna þar við land. Rækjan er hrunin við Noreg og nýlega eru hafnar umfangsmiklar rannsóknir í Noregi á hver áhrif laxeldis í opnum sjókvíum hefur á þorskstofninn.
Þeir sögðu að sjókvíaeldið yrði laust við sjúkdóma.
Hættulegasta veira sem getur greinst í sjókvíaeldi — hin banvæna útgáfa af ISA veirunni sem veldur blóðþorra í laxi— hefur fundist ítrekað á undanförnum mánuðum í sjókvíum á Austfjörðum. Slátra þarf öllum eldislaxi þar af þessum sökum.
Þeir sögðu að þetta myndi skapa trausta atvinnu.
Enga vinnu verður að fá í laxasláturhúsinu á Djúpavogi megnið af árinu 2023, enda enginn lax til að slátra eftir blóðþorrasmitið.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar í fyrra og sýna gríðarlegan laxadauða í sjókvíum á Austfjörðum, líklega af völdum þörungablóma. Myndirnar tók Veiga Grétarsdóttir.