Enn hefur ekkert heyrst frá Matvælastofnun sem á að hafa eftirlit með sjókvíaeldi hér við land.
Í þessari grein sem birtist í Fréttablaðinu fer Elvar vel yfir af hverju sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
„400.000 laxar í íslenskum sjókvíum drápust í júní síðastliðnum og 1.350.000 laxar hafa drepist í sjókvíum það sem af er þessu ári. Til að setja það í samhengi má nefna að íslenski laxastofninn telur aðeins um 50-80 þúsund fiska. …
Undir yfirborði sjávar svamla fiskar sem eru oft á tíðum étnir lifandi af laxalús sem fjölgar gríðarlega í sjókvíaeldi þegar hitastig sjávar hækkar og spillir fyrir villtum stofnum laxfiska.
Í kvíarnar eru sett þúsundir hrognkelsa hverra örlög eru eingöngu að éta laxalús, deyja og rotna undir kvíunum. Til viðbótar er eitrað fyrir laxalús, en helstu sérfræðingar iðnaðarins sögðu á sínum tíma að laxalús yrði ekki vandamál á Íslandi sökum þess hve sjórinn hér er kaldur. Þá hefur lax sloppið úr kvíum og erfðamengunar hefur þegar orðið vart á Íslandi og mun aukast með vaxandi sjóeldi.
Bráðnauðsynlegt er að grípa í taumana áður en það verður of seint. Aðeins þannig verður náttúru- og efnahagslífi Vestfjarða og Austfjarða borgið. Ísland mun ekki komast hjá því að feta sömu leið og nágrannaþjóðirnar. Í Danmörku hefur sú ákvörðun þegar verið tekin að allt eldi verði á landi.“