Þetta er svo grátlega aumt af hálfu stjórnvalda. Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa með þrýstingi í gegnum SFS beygt þau í duftið og komið sér þannig hjá að greiða áætlaða 450 milljón króna hækkun á fiskeldisgjaldinu á næsta ári.
Á sama tíma og þessi iðnaður þykist ekki vera aflögufær ganga eignarhlutir í íslenskum sjókvíaeldisfyrirtækjum kaupum og sölum fyrir tugi milljarða. Nú síðast þegar Mowi, stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki heims, keypti ríflega helmings hlut í Arctic Fish fyrir um 27 milljarða króna.
Söluvaran eru framleiðslukvóti á eldislaxi og aðgangur að takmörkuðum hafsvæðum í eigu þjóðarinnar í fjörðum landins.
Sölufjármunirnir renna beint til þeirra sem sóttu sér framleiðsluleyfin og aðganginn fyrir klink og hafa aldrei viljað greiða hér fyrir afnotin af náttúruauðlindunum.
Við skulum líka muna að þessi fyrirtæki eru rekin stanslaust með bókhaldslegu tapi og hafa því aldrei greitt hér tekjuskatt.
Þessi viðskipti hafa þannig gert örfáa einstaklinga moldríka en þjóðin situr hins vegar eftir með skaðann á unhverfinu og lífríkinu.
Í ítarlegri umfjöllun Kjarnans segir m.a.:
„Í nefndaráliti meirihlutans um breytingar á tekjubandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpi næsta árs er þessi ákvörðun rökstudd með því að þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir hækkun af gjaldtöku af fiskeldi í september síðastliðnum hefði verið gert ráð fyrir því að stefnumótun um fiskeldi yrði lengra á veg komin. …
Röksemdir meirihlutans eru í takti við aðfinnslur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem gæta hagsmuna fiskeldisfyrirtækja, sem settar voru fram í umsögn þess um bandorminn. Samtökin sögðu að gjaldhækkunin væri bæði ótímabær og óhófleg og vísuðu í að yfir stæði ýmis konar vinna og stefnumótum um fiskeldi, meðal annars hjá Boston Consulting Group. Afurð þeirrar vinnu væri óljós á þessu stigi. „Ljóst er þó að ekki er loku fyrir það skotið að ráðist verði í viðamiklar breytingar á lagaumhverfi fiskeldis með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir rekstrarumhverfi fiskeldisfyrirtækja. Að mati samtakanna er verulega óábyrgt og ótímabært að boða áform um verulega gjaldhækkun á sama tíma og atvinnugreinin stendur frammi fyrir heildstæðri úttekt og stefnumótunarvinnu.“
Þau gerðu einnig athugasemd við að ekkert samráð hafi verið haft við SFS við undirbúning skattahækkunarinnar. „Til þess að sátt geti ríkt um gjaldtöku af fiskeldi er mikilvægt að samráð sé haft við hagaðila í viðkomandi atvinnugrein áður en áform af þessu tagi eru kynnt opinberlega.“ ….
Gjaldið sem um ræðir leggst á þá rekstraraðila sem stunda sjókvíaeldi. Aðrir sem stunda fiskeldi, t.d. á landi, eru undanþegnir gjaldinu. Þegar lögin um gjaldtökuna voru sett var samþykkt að veita þessum aðilum aðlögun að því að greiða fullt gjald. Á næsta ári munu sjóeldisfyrirtækin greiða 4/7 af því hlutfalli reiknistofnsins sem þeim mun frá árinu 2026 vera gert að greiða að fullu.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023, sem lagt var fram í september, voru tilteknar tvær megin breytingar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis. Annars vegar er gjaldhlutfallið hækkað úr 3,5 í fimm prósent og hins vegar var viðmiðunartímabil gjaldsins fært nær í tíma. Nánar tiltekið var því breytt þannig að nú er miðað við almanaksárið, en ekki ágúst, september og október. Báðar breytingarnar áttu að gera það að verkum að innheimt gjald myndi hækka og þegar þær væru að fullu innleiddar árið 2026 myndu tekjur ríkissjóðs aukast um 800 milljónir króna á ári.
Nú hefur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar fallið frá þessum breytingum. …“