Við stöndum með Gunnari, landeiganda að jörðinni Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi gegn yfirgangi Arctic Sea Farm (Arctic Fish) og máttleysi íslenskra stofnana.

Sjókvíaeldisfyrirtækið ætlar að koma fyrir kvíum með 8.000 tonnum af eldislaxi í Ísafjarðardjúpi, þar af stórum hluta steinsnar undan strönd jarðar hans. Frá 8.000 tonnum af laxi streymir óhreinsað skólp á við 128.000 manns: fiskaskítur, fóðurleifar, míkróplast í miklu magni, þungmálmar og kemísk efni.

Sjókvíarnar munu gjörspill frið og ró staðarins. Útsýnið verður eyðilagt, látlaust umferð þjónustubáta neð tilheyrandi hávaða er við kvíarnar sem verða upplýstar stóran hluta ársins. Verðmæti eignar Gunnars skaðast auðvitað verulega.

Staðsetning sjókvíanna brýtur þar að auki í bága við vita- og siglingalög, einsog sýnt er fram á í lögbannsbeiðninni.

Í frétt Vísis er m.a. rætt við Katrínu Oddsdóttur:

Landeigandi á Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi krefst þess að sýslumaðurinn á Vestfjörðum leggi lögbann við því að Arctic Sea Farm hf. hefji starfsemi sjókvíaeldis við strönd jarðar sinnar. Segir hann að leyfi sem þegar hafa verið veitt starfseminni séu ólögmæt og að hluti sjókvíanna séu beinlínis á netlög jarðareignar hans, en netlög kallast sá hluti jarða sem land eiga að sjó og ná út í sjóinn. …

Katrín segir stjórnsýsluna ekki hafa tekið mið af netlögunum við veitingu leyfanna.

„Það er búið að vanmeta algjörlega hversu langt landið hans nær út í sjó og fyrir vikið búið að heimila sjókvíaeldi inni á hans eignarjörð sem er galið því hann er alfarið á móti þessu,“ segir hún í samtali við fréttastofu. …

Í lögbannsbeiðninni koma fram helstu ástæður þess að Katrín og skjólstæðingur hennar telja aðgerðir Arctic Sea Farm ólögmætar. Ásamt því að sjókvíarnar liggi að þeirra mati inni á jarðeign landeigandans telja þau að verði af áformum um sjókvíar á svæðinu komi það til með að ógna siglingaöryggi. Sandeyrarsvæðið sé í ljósgeisla frá Óshólavita og því sé um að ræða aðgerð sem brýtur í bága við lög um vitamál.

Einnig fara þau fram á að nýtt umhverfismat þurfi að liggja fyrir og nýtt álit Skipulagsstofnunar um það mat áður en leyfisveiting verður möguleg. Er það vegna rannsóknar lögreglu á slysasleppingum í öðrum kvíum Arctic Sea Farm.

„Lögbannskrafan er um það að þetta verði stoppað þangað til að við getum að minnsta kosti fengið úr um það skorið fyrir þessari blessuðu úrskurðarnefnd hvort það hafi verið lögmætt eða ekki að veita öll þessi leyfi. Það er svo mikill asi á þessu. Leyfin eru veitt í lok febrúar og svo eru bara komnar kvíar og allt fyrir einhverjum viku, tíu dögum. Þetta er svo gígantísk frekja hjá þessum stórfyrirtækjum,“ segir Katrín.