Sníkjudýr, sleppingar og sjúkdómar eru fastir liðir í sjókvíeldi á laxi. Nú er komið upp nýrnaveikismit hjá Arnarlaxi.
Fróðlegt er að lesa ummæli dýralæknis Matvælastofnunar (MAST) í meðfylgjandi frétt Vísis um að sjókvíaeldisfyrirtækin eigi í mestu vandræðum með að halda villtum löxum í vestfirsku fjörðunum frá sjókvíunum.
Ágætt er að minna fólk á að sjókvíaeldið er á Vestfjörðum vegna þess að þar áttu ekki að vera neinir villtir laxastofnar sem myndu spillast vegna erfðablöndunar.
Auðvitað vitum við betur.
Merkilegt er líka að lesa önnur ummæli dýralæknis fisksjúkdóma hjá MAST sem lætur einsog þessi sýking í sjókvíum Arnarlax sé ekkert tiltökumál. Staðreyndin er þó sú að strangt flutningsbann hefur veið sett á fisk og búnað og stífar reglur um hreinsun á hlífðarfatnaði starfsmanna sem eru að störfum við sýktu sjókvíarnar.
Nýrnaveiki er grafalvarlegt mál í sjókvíeldi því eldislaxar eru almennt miklu veikburðari en villtir laxar.
Allir eldislaxar eru með afmyndað hjarta, sem er afleiðing stöðugra „kynbóta“ í um þær tólf kynslóðir sem tók að búa til norska eldislaxastofninn.
Sú ræktun snerist öll um að auka vaxtarhraðann sem mest. Það tókst en á kostnað heilbrigðis eldislaxanna sem eru allir hjartasjúklingar auk þess sem yfir helmingur þeirra er heyrnalaus eða heyrnaskertur og stór hluti með aflagaða hauskúpu og/eða beinagrind vegna vaxtarhraðans.
Ágætt er að hafa í huga þegar ummæli dýralæknis MAST eru lesin að fyrir nokkrum árum stundaði hann samhliða verkum sínum fyrir stofnunina að selja í sínum persónulega rekstri bóluefni fyrir eldislaxa til sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Þeirri aukabúgrein lauk þegar fréttastofa RÚV vakti athygli á þessari óeðlilegu stöðu, að dýralæknir, sem kom að sjókvíeldisfyrirtækjunum fyrir hönd opinberar eftirlitsstofnunar stóð líka í persónulegum viðskiptum við þau.
Nýrnaveiki hefur greinst í löxum í sjókví Arnarlax í Arnarfirði. Dýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST segir smitið hafa borist í kvína úr villtum löxum, en þar sé nýrnaveiki útbreidd. Svona smit geti skilað sér í aðeins meiri afföllum en hafi engin alvarleg áhrif. …
Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir fisksjúkdjóma hjá Matvælastofnun […] segir að svona smit sé ekkert óeðlilegt, og komi ekki til með að hafa teljandi áhrif. Löxunum verði slátrað með eðlilegum hætti þegar að því kemur og ný seiði sett í kvíarnar, sem verða þá laus við sýkinguna. …
Gísli segir að þegar svona smit komi upp í sjókvíum, geti það veikt fiskinn og gert hann veikburðari og opnari fyrir öðrum sýkingum. Það sé aldrei af hinu góða að fá svona sýkingu.
„En fiskarnir eru ekkert veikir eða neitt, og þeim verður slátrað með eðlilegum hætti. Þetta skilar sér kannski í aðeins meiri afföllum með tíð og tíma, en mun ekki hafa teljanleg áhrif,“ segir Gísli.