Jón Þór Ólason með þessa góðu grein í Fréttablaðinu í dag. Jón Þór segir meðal annars:
„Sjókvíaeldi er vissulega stundað í nálægð við veiðiár og árósa í Noregi, sem skýrir m.a. hið skelfilega ástand laxastofna í Noregi þar sem erfðamengun hefur verið greind í tveimur þriðja hluta laxastofnana. Einar skautar hins vegar í öllu fram hjá að svara því er fram kemur í skýrslu norsku vísindanefndarinnar þar sem staðfest var að mestu ógnina við villta laxastofninn þar í landi megi rekja til laxeldis í sjókvíum og að laxalúsin frá sjókvíaeldinu nái til allra stofna í Noregi, líka þeirra sem eru ekki í nálægð við veiðiár og árósa. Norskar rannsóknir hafa líka sýnt að strokulaxar hafa ferðast í allt að 2.000 km áður en þeir hafa gengið upp í ár. Hér má t.a.m. taka ána Tista í Noregi sem dæmi en hún er í um 500 km fjarlægð frá næstu eldisstöð en er samt sem áður uppfull af eldislaxi. Þessar staðreyndir byggja á vísindum og þekkingu.
Þá vísar Einar til þess að á sama tíma og laxeldi hafi margfaldast í Noregi séu villilaxastofnarnir þeir sterkustu í Norður-Atlantshafi. Það mætti hafa gaman af þessari nálgun Einars að staðreyndum ef málefnið væri ekki svona alvarlegt. Staðreyndin er einfaldlega sú að umræddur erfðamengaður villilaxastofn hefur ávallt verið sá sterkasti á umræddu svæði en hefur engu að síður minnkað um rúmlega helming. Til að setja þetta í rökfræðilegt samhengi að hætti áróðursmeistarans mætti líkja þessu við það að gefið hefði verið út sérstakt leyfi á Íslandi í lok maí 1844 til veiða á geirfugli þar sem sá stofn væri sá sterkasti í Norður-Atlantshafi, en eins og sagan segir okkur voru þeir tveir síðustu veiddir í Eldey í júní 1844.
Að lokum varðandi tilvísun Einars til niðurstaðna Kevins Glover, prófessors í Bergen. Glover hefur sjálfur staðfest að umrætt líkan eigi ekki við Ísland þar sem eldi á norskum ræktuðum laxi feli í sér aukaáhættu vegna viðbótar erfðafræðilegra þátta sem ekki er tekið tillit til í líkaninu. Glover hefur einnig í ræðu og riti lýst þeirri skoðun sinni að full ástæða sé til að óttast erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa hér á landi og að viðbúið yrði að sambærileg þróun mundi eiga sér stað á Íslandi og í Noregi með auknu laxeldi. Þar með eru öll „rök“ Einars K. Guðfinnssonar, sem hann skrýddi sig með, fallin. Það þarf ekkert lítið barn til að hrópa „En áróðursmeistarinn er allsber“ til að opna augu almennings hér um.“