Þetta er skelfilegur harmleikur fyrir þessi laxagrey sem eru innilokuð í kvíunum. Einsog að vera í þvottavél í því veðri sem hefur verið hér í vetur og hafa því drepist tugþúsundum saman. Athugið að þetta eru tölur frá því áður en óveðrið skall á.

Í fréttinni kemur fram að MAST hefur ekki farið í sjálfstæða eftirlitsferð í Arnarfjörðinn heldur treystir þessi opinbera eftirlitsstofnun á upplýsingar frá Arnarlaxi.

Sjá frétt Stundarinnar:

“Matvælastofnun (MAST) segir að laxadauðinn hjá Arnarlaxi í Arnarfirði sé um 470 tonn hingað til. Þetta er 370 tonnum meira en samkvæmt síðustu tölum sem Matvælastofnun gaf upp á þriðjudaginn en þá sagði Gísli Jónsson, yfirmaður fiskisjúkdóma, að laxadauðinn væri um 100 tonn. 470 tonn er tæplega 1/8 hluti af öllum eldislaxi sem Arnarlax elur í Arnarfirði.

Tekið skal fram að í svörunum frá Matvælastofnun er gerður fyrirvari um að laxadauðinn geti á endanum reynst vera meira en þessi 470 tonn, um það bil 94 þúsund eldislaxar sé miðað við 5 kílóa meðalþyngd. Í svari MAST kemur fram að rúmlega 800 þúsund eldislaxar hafi verið í sjókvíum Arnarlax í Arnarfirði í lok síðasta árs. Í gær birti Stundin frétt byggða á heimildum þar sem laxadauðinn var sagður vera um fimmfalt meiri en 100 tonn og jafnvel tífalt meiri eða 1000 tonn. Tölur MAST staðfesta þetta mat á umfangi dauðans hingað til.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, hefur ekki viljað svara spurningum um laxadauðann hingað til en nú liggja tölur fyrir þó ekki séu þær endanlegar.”