Koparinn er þungmálmur sem eyðist ekki upp heldur safnast upp í lífríkinu. Við hjá IWF höfum ítrekað bent á þessa skaðlegu mengun í umsögnum okkar til opinberra stofnana og ráðuneyta.
Á sama tíma og stjórnvöld hér hafa verið að rýmka heimildir fyrir notkun þessa hættulega efnis í ásætuvörnum netapoka hafa stjórnvöld í öðrum löndum verið að banna notkun þess í sjókvíaeldi. Á það við um Ástralíu og fleiri lönd.
Arnarlax og Arctic Fish komust upp með að nota kopar árum saman í starfsemi sinni á Vestfjörðum þvert á leyfi og án viðurlaga en fengu síðan leyfunum breytt.
Þessi linkind er lýsandi fyrir lausatökin sem þessi skaðlegi iðnaður hefur búið við af hálfu stjórnvalda.
Í umfjöllun Morgunblaðsins segir m.a.…
„Netin sem notuð eru í kvíarnar í sjókvíaeldi eru mörg gegndræpt með koparblendi. Kostur þess að nýta slíkt efni er að koparblendi hefur örverudrepandi áhrif, en vísindamenn segja hættu á að efnið mengi út frá sér og gera þeir nú ráð fyrir neikvæðum áhrifum þess á lífríkið nálægt sjókvíaeldi umrætt efni er notað, að því er fram kom í umfjöllun 200 mílna.
Norska hafrannsóknastofnunin (Havforskningsinstituttet) tilkynnti fyrr á árinu að hún hafi unnið að því að taka saman fyrirliggjandi þekkingu á losun kopars og hafið rannsóknir á áhrifum þess á krækling. Verkefnið er framkvæmt að beiðni norsku fiskistofunnar (Fiskeridirektoratet).
Í færslu á vef stofnunarinnar fullyrðir Bjørn Einar Grøsvik, vísindamaður á sviði mengunar, að „losun kopars frá netunum er af þeirri stærðargráðu að við gerum ráð fyrir að hún hafi áhrif á sjávarlífverur.“