Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Svona hegðar þessi iðnaður sér. Engin virðing fyrir umhverfinu, lífríkinu, eldisdýrunum né neytendum.
Öllu þessu er vikið til hliðar fyrir mögulegum hagnaði fyrirtækjanna sjálfra.
Hvert er hlutfalls þess sem Norðmenn kalla „framleiðslufisk“ hjá íslensku sjókvíaeldisfyrirtækjunum? Það er eldislax sem er vegna sára af völdum laxalúsar eða bakteríusýkinga ekki hægt að gera úr flök en sárin skorin burt og gerðir fiskborgarar eða önnur vara fyrir neytendamarkað.
Bannað er að flytja sláturfisk sem ber svona sár úr landi án þess að hann hafi verið unninn áður í Noregi, væntanlega vegna þess að iðnaðurinn vill ekki láta sjást í öðrum löndum hvernig fiskurinn lítur út áður en sárin hafa verið skorin burt.
Það væri forvitnilegt að vita hvað gert er við þann fisk hér á landi.
Norska ríkisútvarpið NRK hefur fengið afrit af samskiptum ísraelskra yfirvalda við matvælaeftirlitið í Noregi en þangað barst fyrsta kvörtun Ísraela í janúar í fyrra.
„Ofan á lyktina og eftirbragðið var einnig að finna opin sár á laxinum og svarta flekki auk þess sem hann var fölleitur og mislitur,“ skrifuðu Ísraelar þar og sendu eina sendingu af ómetinu til baka til Noregs.
Leið svo og beið og fáeinum mánuðum síðar tóku að berast kvartanir frá viðskiptavinum ísraelskra stórmarkaða sem lyktaði með því að heilbrigðisráðuneytið þar í landi lagði blátt bann við sölu laxins til neytenda. Fékk norska matvælaeftirlitið skýrslu og myndir frá ísraelskum heilbrigðisyfirvöldum og staðfesti rannsókn í Noregi að um skemmdan lax væri að ræða.
Svo virðist sem norskum laxabændum hafi orðið á í messunni þar sem um svokallaðan framleiðslufisk er að ræða, produksjonsfisk á norsku, og er þar um að ræða lægsta gæðaflokk norsk lax. Slíkur lax er óheimill til útflutnings nema fullunninn en svo var ekki í þessu tilfelli – ýmist voru heilir frosnir laxar sendir út eða laxastykki með roði.
Hafa kvartanir einnig borist frá nokkrum Evrópusambandslöndum og kvað svo rammt að, að norska matvælaeftirlitið gerði út eftirlitshóp sem heimsótti 49 fyrirtæki og uppgötvaði ellefu tilfelli þar sem framleiðslufiskur hafði verið fluttur út þrátt fyrir bannið.
Elisabeth Wilman, deildarstjóri lögfræði- og alþjóðadeildar matvælaeftirlitsins, segir í samtali við NRK að eftirlitshópurinn hafi verið sendur út af örkinni þegar nokkrar tilkynningar höfðu borist, hvort tveggja frá erlendum kaupendum og aðilum í Noregi, um að verið væri að senda ólöglegan lax úr landi.
…
Þar sem Ísraelsmarkaður er norskum fiskiðnaði mikið fjöregg – en þangað flýgur Boeing 747-flutningavél full af fiski tvisvar í viku – ákvað matvælaeftirlitið að senda mannskap til Ísraels í fyrra, raunar ekki vegna þess máls sem hér segir af heldur vegna fyrirspurna frá ísraelskum kaupendum um norskan fisk af vafasömum gæðaflokki. …
Norska lagmetisráðið bendir á að endursending fiskjar sé mál sem kaupandi og seljandi eigi sín á milli. „Almennt getum við sagt að norskur lax skipi mjög sterkan sess. Hann er eftirsótt vara á fjölda markaða, meðal annars vegna gæða sinna,“ segir Martin Skaug, upplýsingafulltrúi ráðsins, í tölvupósti til NRK. Segir hann enn fremur að því geti tilfelli á borð við þessi verið óheppileg og ráðið viti til þess að útflutningsfyrirtækin geri allt sem í þeirra valdi standi til að fyrirbyggja.