Í kjölfar afskipta Neytendastofu hafa Norðanfiskur og Fisherman fjarlægt af umbúðum utan um sjókvíaeldislax orðin „vistvænn, umhverfisvænn og sjálfbær“ enda á ekkert af þeim við um eldislax sem framleiddur er í opnum sjókvíum.
Sjókvíaeldi er í flokki mengandi iðnaðar á vef Umhverfisstofnunar. Það er skaðlegt umhverfinu og lífríkinu og fer auk þess ömurlega með eldisdýrin. Þetta er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Ánægjulegt er að sjá Neytendastofu taka hart á villandi markaðssetningu matvæladreifingarfyrirtækjanna tveggja. Ekki þarf að efast um að niðurstaðan verði sú sama í máli framleiðandans Arnarlax, sem Neytendastofa vinnur enn þá að.
Í tilkynningu Neytendastofu segir:
Norðanfiski og Fisherman hefur verið bannað að nota villandi fullyrðingar í markaðssetningu.
Forsaga málsins er sú að Neytendasamtökin fengu ábendingu frá árvökulum félagsmanni um villandi merkingar hjá tveimur fyrirtækjum; Fisherman ehf og Norðanfiski.
Neytendasamtökin telja einsýnt að orðnotkunin „vistvænt sjóeldi“ sé afar villandi og í raun ólíðandi refhvörf. Þannig er sjókvíaeldi beinlínis flokkað sem mengandi iðnaður á vef Umhverfisstofnunar enda fer skólpið sem verður til við framleiðsluna beint í sjóinn. Norska umhverfisstofnunin hefur metið mengunina af hverju tonni í sjókví á við skólp frá 16 manneskjum. Laxar eru t.d. með leyfi fyrir 16.000 tonnum í Reyðarfirði, sem framleiðir þannig skólp á við 256.000 manns. Það getur ekki talist vistvænt.
Erfðablöndun villtra stofna er að sama skapi afleiðing af sjókvíaeldi. Hún hefur verið staðfest hér rétt eins og í öllum löndum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Hér hefur Hafrannsóknarstofnun gefið út „áhættumat erfðablöndunar“. Þar er miðað við að allt að 4% af laxi í ám geti komið úr eldi. Það er í raun sturluð tala, einn af hverjum tuttugu löxum. Það getur ekki talist vistvænt.
Á umbúðum Norðanfisks var fullyrt að um vistvænt sjóeldi væri að ræða. Neytendasamtökin óskuðu eftir upplýsingum frá fyrirtækinu um hvað átt væri við með orðalaginu „vistvænt sjóeldi“ og hvort einhver vottun lægi þar að baki. Í svörum fyrirtækisins kom fram að birgjar þeirra skilgreindu sjálfir sitt eldi sem vistvænt en hefðu enn ekki hlotið neinar vottanir.
Í framhaldinu sendu Neytendasamtökin kvörtun til Neytendastofu og fóru fram á að stofnunin tæki afstöðu til þess hvort orðanotkun Norðanfisks á „vistvænu sjóeldi“ á umbúðum væri villandi í skilningi laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Einnig var send kvörtun vegna fullyrðinga Fisherman ehf sem segir framleiðslu sína vistvæna, umhverfisvæna og sjálfbæra.
Neytendasamtökin sendu jafnframt Neytendastofu ábendingu um villandi umhverfisfullyrðingar í markaðssetningu Fisherman um að fiskurinn þeirra væri framleiddur á umhverfisvænan hátt.
Neytendastofa hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að bæði Norðanfiskur og Fisherman ehf. hafi brotið gegn lögum. Fyrirtækin gátu ekki sýnt fram á að fullyrðingar um vistvænt og sjálfbært laxeldi ættu rétt á sér og væru því villandi.
Neytendasamtökin fagna þessum úrskurðum Neytendastofu sem samtökin telja að setji skýrt fordæmi. Hvetja samtökin félagsmenn og aðra neytendur til árvekni þegar kemur að vafasömum umhverfisfullyrðingum fyrirtækja og grænþvottartilraunum.
Sjá ákvarðanir Neytendastofu gagnvart Norðanfiski og Fisherman.