„Það hefur oft verið haft eftir Jörundi að hann telji netin eigi að taka 85 prósent af heildargöngunni í vatnasvæðinu. Þetta er náttúrlega bara útrýming og getur ekki gengið lengur. Við erum komin á þann stað að þetta er að verða búið,“ segir Árni Baldursson landeigandi við Sogið og stangveiðigoðsögn í merkilegri fréttaskýringu sem var að birtast á Vísi. Þar er farið yfir sorglega framgöngu netaveiðifólks í Ölfusá, sem gengur fram af mikilli óbilgirni í drápi á villtum laxi á leið til hrygningarstöðva sinna.
… Net hafa verið keypt upp á svæðinu en ekki að fullu; Auðsholtshjáleigumenn standa út af. Lögbýlið Auðsholt er með 75 prósent netaveiðiréttar, en eigendur Auðsholts sömdu um að leigja netin frá sér og greiddi Verndarsjóður Villtra Laxastofna (NASF) þeim fyrir uppkaupin á þeirra hluta.
Vísi hafa borist myndir af netum sem lögð hafa verið þvert yfir ála en fullyrt er að með þessum netalögnum sé verið að þverbrjóta öll lög. Óheimilt sé að loka álum með netum; þau megi lögum samkvæmt aðeins loka einum þriðja leiðarinnar.
Óheimilt er að leggja net nema frá landi en myndirnar sýni að netin séu lögð milli laxakletta í ánni. Þá er fullyrt að netin séu miklu lengri en þau megi vera. Málið er afar viðkvæmt og í raun hefur það skipt sveitinni allri í tvö horn. Vísir forvitnaðist um málið og flækti sig í netin.
Nýir tímar hljóti að kalla á nýja hugsun
Árni Baldursson laxveiðispekúlant er landeigandi á svæðinu, við Sogið nánar tiltekið og hann segir að það verði að finnast lausn á þessu ástandi því verið sé að útrýma laxinum á svæðinu með mjög þróuðum veiðibúnaði. Hann segir netaveiðimenn kála öllum laxi sem gengur upp svæðið sem þýðir að engin endurnýjun er í stofninum. Sjálfbærni er engin. En það gengur illa að fá netaveiðimenn til að kannast við þetta. …„Saga netaveiða í Ölfusá í Hvítársvæði nær hundrað ár aftur í tímann. Sterkur netaveiðiréttur sem bændur hafa þarna og því er þetta ósanngjörn og erfið barátta. Í veiðifélagi Árnessýslu eru 260 landeigendur og að meirihluta netaveiðimenn. Þetta er öðruvísi en var í gamla daga þegar allar ár voru fullar af laxi og netaveiði komst upp í að veiða 10 til 15 þúsund laxa, laxagengdin var svo mikil.“
Nú er öldin önnur, náttúran viðkvæm og lítið um lax. Og það sem til fellur klófesta netaveiðimennirnir sem taka það sem þeir ná í, að sögn Árna. Sem þýðir einfaldlega að ekki fer hann ofar og hrygnir.
Jörundur Gauksson er formaður og stjórnar veiðifélaginu með harðri hendi, vill Árni meina og hefur gert lengi. Árni fullyrðir að Jörundur beinlínis hvetji netaveiðibændum til að veiða sem mest og drepa, því meira því betra. …
„Það hefur oft verið haft eftir Jörundi að hann telji að netin eigi að taka 85 prósent af heildargöngunni í vatnasvæðinu. Þetta er náttúrlega bara útrýming og getur ekki gengið lengur. Við erum komin á þann stað að þetta er að verða búið.“