Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum tökum undir með Náttúrugriðum.
Forsvarsmenn Arctic Fish eiga að bera ábyrgð á því að þeir kusu að haga rekstri fyrirtækisins með þeim hætti að hér varð stórfellt umhverfisslys.
Arctic Sea Farm og forsvarsmenn þess eiga að sæta ábyrgð á umhverfistjóni. Brot starfsmanna sæta allt að fjögurra ára fangelsisvist.
Vísir fjallaði um erindi Náttúrugriða:
„Brot fyrirtækisins teljum við varða við ákvæði laga um umhverfisábyrgð frá 2012, sem ekki hefur áður verið látið reyna á,“ segir í tilkynningu Náttúrugriða til fjölmiðla en hún er undirrituð af formanninum, Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.
„Brotin eru svo alvarleg að þau gætu að okkar mati einnig varðað refsingu skv. ákvæði almennra hegningarlaga um meiri háttar umhverfisbrot. Slík brot voru lýst refisverð með lagabreytingu 1999 og hefur einungis einu sinni verið ákært á grundvelli ákvæðisins en það var árið 2020 vegna losunar mengandi úrgangs.“
Náttúrugrið krefjast þess að Umhverfisstofnun grípi til aðgerða á grundvelli laga um umhverfisábyrgð vegna umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhvefistjóni. Í kröfunni er greint frá því að hin kynþroska eldislax úr sjókvíum Arctic Sea Farm hafi gengið upp í fjölda laxveiðiáa.
Vísað er til ummæla Karls Steinars Óskarssonar, deildarstjóra fiskeldis hjá Matvælastofnun, að vísbendingar séu um að fyrirtækið hafi misafið með ljósastýringu í sjókví í Kvígindisdal í Patreksfirði, með þeim afleiðingum að fiskurinn hafi orðið kynþroska.
„Matvælastofnun hefur beint kröfu um opinbera rannsókn til lögreglunnar á Vestfjörðum vegna meintra brota á lögum um fiskeldi nr. 71/2008. Byggist sú krafa á því að Arctic Fish hafi ekki sinnt neðansjávareftirliti á laxeldiskví í 95 daga í aðdraganda þess að kynþroska lax slapp úr kvínni, þrátt fyrir að fyrirtækinu beri að sinna slíku neðansjávareftirliti með köfurum á að minnsta kosti 60 daga fresti, auk þess að laxeldisfyrirtækið hafi ekki fjarlægt fóðurtæki úr kvínni líkt og fyrirtækið hefði átt að gera. Fóðurtækið, eða fóðrarinn, hafi í kjölfarið myndað götin tvö á kvína sem eldislaxarnir sluppu út um,“ segir í kröfugerðinni.