Við spyrjum einsog vinir okkar hjá NASF ef botn sem er þakinn hvítri bakteríuleðju fær fyrstu einkun úr innra eftirliti sjókvíaeldisins, hvað er þá að marka slíkt eftirlit?
Í greininni segir Elvar m.a.:
„Stuðningsmenn sjókvíaeldisiðnaðarins hafa í þessari viku fjallað um að Verndarsjóður Villtra Laxastofna (NASF) hafi logið til um ástand á hafsbotni undir sjókvíum í Dýrafirði. Viðtal við við NASF var sýnt nýverið á Hringbraut og í kjölfarið var birt grein um sama efni í Fréttablaðinu. Í svari talsmanna sjókvíaeldisiðnaðarins var skautað framhjá öllum aðalatriðum viðtalsins eins og nýlegu umhverfisslysi þar sem um 81.000 eldislaxar sluppu úr sjókví á Vestfjörðum. Einungis er fjallað um orð framkvæmdastjóra NASF um slæma stöðu hafsbotnsins undir kvíastæðinu Gemlufalli í Dýrafirði.
Í svari talsmanna sjókvíaeldisiðnarins hefur verið vísað í eftirlitsskýrslu þar sem hafsbotninn í Dýrafirði fær einkunina „1 – Very good“. Sú mæling sem vísað er í var tekin 07. júlí 2021 við umrætt kvíastæði, Gemlufall í Dýrafirði. … Hvít, slímkennd motta liggur yfir botninum og ekki er hægt að sjá út frá þessu myndefni að þarna þrífist mikið líf. Málið vakti mikla athygli og rataði það að sjálfsögðu inn á borð Umhverfisstofnunar. Þar, vegna annmarka í lagaheimildum strandaði þetta mál. …
Spurningarnar sem vakna upp eru nokkrar.
Getur einhver innan sjókvíaeldisiðnaðarins eða hjá þeim stofnunum og fyrirtækjum sem sinna eftirliti staðfest að hafsbotninn sem sést á þessum myndum sé í toppstandi, eða „1 – Very good“?
Ef þessi hafsbotn er í lagi, hvernig er þá hafsbotn sem fær slæma einkunn?
Er ekki einkennilegt að fyrirtæki og stofnanir séu ekki meðvituð um hvernig hafsbotn lítur út áður en stórfellt mengandi sjókvíaeldi hefst?
Er það ekki bogið að opinberar eftirlitsstofnanir hafa ekki heimild til þess að sinna eftirliti með mengandi iðnaði af eigin frumkvæði og sannfæringu ?
Er það ekki bogið að sjókvíaeldisiðnaðurinn fái að hafa eftirlit með sjálfum sér?
NASF kallar eftir stórauknu óháðu eftirliti með sjókvíaeldisiðnaðinum og breyttum reglum og fjármunum sem heimila rannsóknir á atriðum sem þessum en þær heimildir eru ekki að finna í lögum í dag.“